Það var rætt við Stefán Þorgrímsson í fimmtudagsmogganum og segir hann farir sínar ekki sléttar. Stebbi frændi segir farir sínar ekki sléttar. Hann er kvæntur brasilískri stúlku sem ég kann því miður ekki að nefna – hef raunar aldrei talað við hana. Þau eignuðust á dögunum saman myndarlegan strák.
Þar sem móðirin hafði ekki búið hér á landi í hálft ár fyrir fæðingu, telst hún ekki komin inn í íslenska almannatryggingakerfið. Það þýðir að Landsspítalinn rukkar þau um kostnaðinn við fæðinguna, sem endaði með keisaraskurði. Reikningurinn er upp á hálfa milljón. Sem eru nokkurra mánaða ráðstöfunartekjur fyrir mann eins og Stefán sem vinnur við umönnunarstörf í heilbrigðiskerfinu.
Á Mogganum bendir Stefán á að íslenskar konur sem giftar eru erlendum körlum lendi ekki í þessari stöðu. Ríkisvaldið lítur sem sagt ekki svo á að pör eignist börn saman, heldur konan ein.
Sjálfur myndi ég vilja nálgast málið frá annarri hlið. Hvað segir stefna ríkisins um viðhorf þess til fyrirbærisins barnsfæðingar? Á mínum huga gengur barnsfæðing út á að hjálpa nýjum einstaklingi að koma í heiminn. Barnið er aðalpersónan í leikritinu, þótt vissulega sé móðirin í veigamiklu hlutverki.
Barnið sem þarna fæddist er íslenskur ríkisborgari og fer beint inn í tryggingakerfið (ekkert 6 mánaða dæmi þar). Út frá því finnst mér augljóst að ríkið eigi að greiða fyrir fæðingu barnsins, á sama hátt og greitt er úr sameiginlegum sjóðum fyrir allar barnasprauturnar, ungbarnaeftirlitið o.s.frv.
Ríkið virðist hins vegar líta á fæðinguna sem læknisfræðilega aðgerð sem framkvæmd er á móðurinni – að tilgangurinn sé að losa hana við aðskotahlut, þ.e. barnið – sem verði ekki til sem einstaklingur fyrr en mínútu eftir fæðinguna. Það er sorglegt viðhorf.
Hér er svo sannarlega illa farið með góða fjölskyldu.
# # # # # # # # # # # # #
Þvörusleikir var rétt áðan að gefa Ólínu nýja vídeóspólu með ævintýrum Bubba Byggis. Á raun mun þessi gjöf gagnast foreldrunum betur en barninu. Ólína er alveg sátt við spóluna sem hún á fyrir – en ég enda á að drepa framleiðendur þáttanna ef ég þarf einu sinni enn að horfa á Bubba og Selmu vinna gullverðlaunin í línudanskeppninni.
# # # # # # # # # # # # #
Luton mætir Southend annað kvöld í beinni á Sky. Stebbi Hagalín hafði stór orð um að hitta mig á Ölveri. Sjáum hvort hann stendur við það.
Allir góðir menn eru annars velkomnir á svæðið. Ég verð amk kominn í sæti hálf átta.