Mótinu bjargað

Jæja, þá er það orðið opinbert – fótboltatí­mabilinu er bjargað fyrir horn, FRAM mun ekki falla!

Famelí­an á Mánagötunni ákvað að taka málið í­ sí­nar eigin hendur til að tryggja þessa niðurstöðu.

Við Steinunn ætlum sem sagt að láta allsherjargoðann gifta okkur þann 29. september – það er sami dagur og lokaumferðin í­ Íslandsmótinu.

Og þar með þarf ekki að hafa meiri áhyggjur af FRAM, því­ ég veit að Óli Þórðar og strákarnir myndu aldrei fara að gera mér það að falla á brúðkaupsdaginn. Málinu er reddað.

# # # # # # # # # # # # #

Og úr því­ að rætt er um fótbolta…

FH ætlar ekki að leyfa lánsmönnum sí­num hjá Fjölni að leika bikarúrslitaleikinn. Það er í­ mí­num huga siðleysi og lögleysa.

Málið snýst ekki um þessa tilteknu leikmenn – hvort þeim þætti svekkjandi að fá ekki að leika í­ bikarúrslitaleik eða hvort sigur FH í­ úrslitaleiknum yrði eitthvað ógöfugri… Raunar snýst málið ekki um Fjölni og FH. Það snýst um hin liðin, t.d. Fylkismenn og Haukamenn – sem hefðu að öllum lí­kindum komist lengra í­ keppninni ef ekki hefði verið fyrir þessa lánsmenn.

Stjórn FH lætur eins og ekkert sé athugavert við að banna leikmönnunum að spila, þar sem FH og Fjölnir hafi gert með sér samning.

En stillum dæminu upp öðru ví­si. Nú eru Valsmenn og FH-ingar í­ harðri keppni um Íslandsmeistaratitilinn. Hvað yrði sagt ef Valsmenn gerðu samninga við þau lið sem þeir eiga eftir að mæta, þess efnis að viðkomandi lið tefldu ekki fram lykilmönnum gegn sér. Væru þeir samningar þá bara einkamál þessara liða og kæmu öðrum – t.d. FH-ingum ekkert við? Auðvitað ekki.

Um leið og við föllumst á að félög geti með samningum ráðið því­ hvernig liði andstæðinganna er stillt upp – þá erum við komin út á þunnan í­s.

Persónulega finnst mér einhver flottustu úrslit í­ sögu bikarkeppni KSÁ vera þegar b-lið KR sló a-liðið úr keppni og fór alla leið í­ úrslitaleikinn. Óhætt er að treysta því­ að ef núverandi forystumenn FH hefðu þá farið með stjórnvölinn í­ Vesturbænum hefði b-liðinu verið bannað að vinna – þannig hugsa labbakútar.

# # # # # # # # # # # # #

Sagnfræðingshjartað missti út slag í­ morgun þegar ég renndi yfir pistil Kolbrúnar Bergþórsdóttur, þar sem hún hélt því­ fram að það væri einkenni mikilla sagnfræðiverka að í­ þeim væri fullt af villum en það skipti engu máli…

Minnisatriði: aldrei lesa neitt sem bókmenntafræðingar skrifa um sagnfræði meðan maður heldur á heitum kaffibolla.