Það var sett áhorfendamet á Íslandsmótinu í fótbolta í sumar, eins og margoft hefur verið tekið fram í fjölmiðlum. Þetta er auðvitað ánægjulegt. Það er gott að sem flestir mæti á fótboltaleiki og ætti að kæta fótboltaáhugamenn jafnt sem auglýsendur.
Ég verð samt alltaf örlítið skeptískur þegar talið berst að áhorfendatölum í efstu deild – einkum þegar verið er að bera saman áhorfendafjölda milli ára eða yfir lengri tímabil.
Þegar ég var í lausamennskunni á íþróttadeild Moggans fyrir tæpum áratug kom það sjaldan fyrir að ég skrifaði um leiki í efstu deild. Mitt hlutverk var að skrifa um næstefstu deildina og minni leikina í handboltanum – sem hentaði mér ágætlega, fínn peningur fyrir litla vinnu og blaðamannapassi á leiki.
Eitt sinn var ég þó fenginn til að skrifa um leik Grindavíkur og Fram í lokaumferð Íslandsmótsins. Grindvíkingar þurftu sigur til að halda sér uppi – og það tókst. Til að fjölga áhorfendum á vellinum gripu fyrirtæki í Grindavík til þess ráðs að bjóða frítt á leikinn. Á þessum árum voru slíkar ráðstafanir afar sjaldgæfar, en þekktust þó.
Á hálfleik reyndi ég að slá á hversu margir áhorfendur væru. Ég skaut á 250 manns, þar af 150 Framara. Taldi ég þarna raunar fremur vel í lagt, en rölti þó til vallarstarfsmanna og spurði um fjöldann. 440 sögðu þeir, án þess að blikna, og hvikuðu ekki frá þeirri tölu þrátt fyrir mótmæli mín. Ég nennti ekki að standa í neinum illdeilum og skrifaði samviskusamlega: „íhorfendur 440 að sögn vallarstarfsmanna.“
Eftir leikinn urðu Grindvíkingar líklega enn gráðugri, því í Íslenskri knattspyrnu Víðis Sigurðssonar er sagt að áhorfendur á leiknum hafi verið 680. Það er talan sem er í opinberum gögnum KSÁ reikna ég með – og væntanlega talan sem fyrirtækin í Grindavík borguðu fyrir.
Á dag eru það ekki 1-2 leikir á ári sem fyrirtæki bjóða á. Talan er væntanlega nær 10-15 leikjum. Það þýðir annars vegar að samanburður við leiki sem selt er inn á er óraunhæfur og hins vegar að hvati félaganna til að gefa upp alltof háar tölur er mjög mikill.
Ef aðsóknartölur frá níunda áratugnum eru skoðaðar kemur í ljós að þær eru oft ótrúlega lágar, en furðulega nákvæmar. íhorfendur eru þannig ekki sagðir 550 eða 600 heldur 547 eða 604. Hér er því ekki verið að slumpa á tölur að teknu tilliti til boðsmiðahafa, heldur eru einungis taldir þeir sem greiddu aðgangseyri. Aftur er samanburður orðinn erfiður.
Síðast en ekki síst vekur athygli að á stórleikjum níunda áratugarins þótti harlagott að ná þúsund áhorfendum. Þeir sem mættu á þá leiki vita vel að 1000 manna leikur árið 1987 var ólíkt fjölmennari en 1000 manna leikur árið 2007.
Á dag skipta áhorfendatekjur ekki mestu fyrir fjárhag félaganna. Það gera hins vegar auglýsingatekjur og styrkir. Til að afla slíkra tekna er gott að geta veifað sem hæstum áhorfendatekjum.
Hér áður fyrr var miðasalan mun veigameiri tekjulind. Mig grunar að þar hafi gjaldkerum félaganna gefist kostur á að „fiffa“ ákveðna hluti í bókhaldinu. Greiðslur til leikmanna voru mikið feimnismál og máttu helst ekki sjást í reikningum – en ef hægt var að setja til hliðar aðgangseyri t.d. frá 100-200 áhorfendum á leik og greiða undir borðið til einstakra leikmanna, þá þurfti enginn að komast að neinu. Ég tek það fram að þetta er bara grunur – ég hef ekkert ákveðið í höndunum um þetta.
Á það minnsta ættu menn að fara aðeins varlega í að syngja áhorfendaaukningunni lof og prís.