Þessi færsla gæti birst í belg og biðu – enda skrifuð í Safari. Eina örugga leiðin til að blogga almennilega úr heimatölvunni með málsgreinaskilum er að nota Firefox. Sem er í skralli hjá mér núna.
Firefox er raunar meginefni þessarar færslu…
Hvaða apaköttur með orðabók semur textana á íslensku upphafssíðu Firefox? Enskuskotnara gerist orðalagið varla. Dæmið sjálf: „Fáðu Firefox bol og fleira dót í Mozilla búðinni. Allar keyptar vörur eru til hagsbóta fyrir Mozilla stofnunina.“ Eða: „Elskarðu Firefox? Við treystum á fólk eins og þig til að breiða út orðið.“
Stuna!
# # # # # # # # # # # # #
Athyglisverð tölfræði úr íslenska boltanum:
Paul McShane fékk rautt spjald að loknum leik Fram og Fjölnis fyrr í sumar, þegar kom til stimpinga eftir að flautað hafði verið til leiksloka. Þetta er eina rauða spjaldið á Framara það sem af er tímabili.
Þetta þýðir að enginn Framari hefur fengið rautt spjald í leik – sem er fjári góður árangur hjá liði sem flestum ber saman um að sé mjög varnarsækið. Sýnir fyrst og fremst að leikmennirnir kunna að ganga nákvæmlega eins langt og dómarinn leyfir, en láta þar staðar numið. Þetta er lykillinn að velgengni sumarsins.