Stuðningurinn við ríkisstjórnina mælist 31,6%. Verra gæti það verið. George W. Bush var t.d. óvinsælli drjúgan hluta seinna kjörtímabils síns. Nixon var viðlíka óvinsæll, sem og Carter meðan á gíslatökunni í Teheran stóð.
En rifjið nú aðeins upp fyrir mér gott fólk…
Það er eins og mig minni að þegar borgarstjórarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur Magnússon mældust hvað óvinsælastir, hafi ekki verið hörgull á krötum sem töldu að borgarstjóra væri ekki sætt í ljósi slíks stuðnings.
Og mig rámar líka eitthvað í að sumum Samfylkingarmönnum hafi orðið tíðrætt um hversu óheppilegt það væri að sveitarstjórnarlögin heimiluðu ekki kosningar á miðju kjörtímabili.
Væri ekki rakið ef einhver fjölmiðillinn myndi nú biðja Dag B. Eggertsson um að útskýra hvers vegna það sé sjálfsögð lýðræðisleg krafa að Reykvíkingar fái að kjósa til borgarstjórnar þegar borgarstjóri er rúinn trausti – meðan þveröfug lögmál virðast gilda um landsstjórnina.
# # # # # # # # # # # # #
Tap gegn Rochdale á útivelli. Þrír næstu deildarleikir eru á heimavelli gegn andstæðingum sem ættu að vera viðráðanlegir. Þessi leikjahrina gæti ráðið úrslitum um hvort við náum að hanga uppi.