Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er afar athyglisverð. Þar kemur fram að rætt sé um það í fullri alvöru hvort leggja beri Varnarmálastofnun niður. Það eru mikil tíðindi í ljósi þess að stofnunin er aðeins fáeinna mánaða gömul.
Sjálfur hef ég fylgst grannt með stofnuninni – fyrst í aðdraganda hennar, þá þegar henni var komið á laggirnar (og ég sótti um forstjórastöðuna) og loks þessa mánuði sem hún hefur starfað.
Við í SHA settum fram margvíslega gagnrýni á lögin um Varnarmálastofnun. Ég og Einar Ólafsson, ritstjóri Friðarvefsins, héldum á fund utanríkismálanefndar og kynntum sjónarmið okkar. Þar gagnrýndum við bæði ýmsar brotalamir í lögunum, bentum á hættuna á að stofnunin yrði peningahít og lýstum þeirri skoðun að málaflokkurinn ætti ekki heima undir utanríkisráðuneytinu heldur í fagráðuneytinu. ín þess að vilja leggja til að stofnað væri innanríkisráðuneyti, bentum við á að slíkt ráðuneyti væri þó skömminni skár til þess fallið að sinna verkefninu en utanríkisráðuneytið.
Það sem vakti athygli mína á fundinum með nefndinni, var hversu veika sannfæringu stjórnarliðar virtust hafa í málinu. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, virtist sammála flestöllum okkar sjónarmiðum (fyrir utan smáatriði eins og að við vildum ganga úr Nató o.þ.h.)
Sjálfstæðismennirnir í hópnum virtust ekkert spenntir fyrir þessari stofnun – og kratarnir voru svo sem ekkert brennandi af hugsjónaeldi heldur.
Varnarmálastofnun er að mínu mati hugarfóstur embættismanna í utanríkisráðuneytinu sem kynntu tillögurnar fyrir nýjum utanríkisráðherr, Ingibjörgu Sólrúnu – sem ákvað að gera þær að sínum, á sama hátt og hún gerði varðandi öryggisráðsframboðið. Hvorki framboðið til öryggisráðsins né Varnarmálastofnun voru baráttumál Samfylkingarinnar í síðustu kosningum og því óskiljanlegt hvers vegna formaður flokksins tók slíku ástfóstri við hluti sem hún tók í arf frá forvera sínum.
Ef Varnarmálastofnun verður slegin af, er hér um að ræða eitt dýrkeyptasta stjórnsýsluævintýri seinni ára. Óþarft er að taka það fram að ef ég hefði verið valinn forstjóri – hefði ég að sjálfsöðgu afsalað mér réttinum til biðlauna…
# # # # # # # # # # # # #
Og í framhaldi af þessu: Allir að mæta á þennan fund í Friðarhúsi í kvöld.