Saga verðtryggingarinnar á Íslandi er í hugum margra tengd Ólafi Jóhannessyni, enda var hún eitt lykilatriðið í Ólafslögum, sem við hann eru kennd. Ólafur sagði lögin hafa verið samin við eldhúsborðið heima hjá honum. Það getur ekki staðist… ég hef séð eldhúsborðið á Aragötunni, þar er ekki pláss fyrir mikla lagasmíð.
En þótt lagabálkurinn beri nafn Ólafs Jóhannessonar, hafa ekki allir verið jafnánægðir með þá nafngift.
Vorið 2007 vék Jón Baldvin Hannibalsson að Ólafslögum í ritdómi:
Loks er þess að geta, að umfjöllun höfundar um svokölluð “Ólafslög” (sjá bls. 177-78) þarfnast endurskoðunar. Ólafslög, þar sem kjarni málsins var verðtrygging fjárskuldbindinga, þótt að öðru leyti væru þau um “efnahagsmálapakka”, miðað við þáverandi aðstæður verðbólgu og misgengis, átti uppruna sinn í frumvarpi, sem við Vilmundur Gylfason verkstýrðum af hálfu þingflokks Alþýðuflokksins og var lagt fram um jólaleytið 1978 sem skilyrði fyrir áframhaldandi stjórnarsamvinnu.
Verðtryggingarkaflinn var að mestu verk Jóns Sigurðssonar, forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar, síðar þingmanns og ráðherra Alþýðuflokksins (og bróðursonar Haraldar Guðmundssonar, guðföður velferðarríkisins íslenska). Greinargerðin og rökstuðningurinn með frumvarpinu var höfundarverk Gylfa Þ. Gíslasonar, fv. ráðherra Alþýðuflokksins í Viðreisnarstjórninni. Eini maðurinn, sem eftir því sem best er vitað hafði ekkert til málanna að leggja um svokölluð Ólafslög, var Ólafur Jóhannesson sjálfur. (feitletrun mín)
Þetta er ekki sagt Ólafi til hnjóðs, heldur aðeins til að halda til haga sögulegum staðreyndum. Svona getur verið auðvelt að koma á kreik sögusögnum um sögulegar staðreyndir, sem síðan verða að goðsögnum, sem seinni tíma menn glepjast til að trúa.
Tveimur árum síðar, vorið 2009, hafði orðstír verðtryggingarinnar beðið nokkurn hnekki. Þá bloggar Jón Baldvin að nýju um Ólafslög:
Á fundi Framsóknarfélaganna í Reykjavík á Grand Hótel sl. mánudagskvöld sagði Gunnar Tómasson hagfræðingur að verðtryggingin væri mestu hagstjórnarmistök Íslandssögunnar. Ef veitt væru Nóbelsverðlaun fyrir vitlausar hugmyndir í hagfræði, (sem gerist alltaf öðru hverju) ætti höfundur hennar Nóbelsverðlaunin skilin.
Þetta var réttur staður og stund til að kom þessum skilaboðum á framfæri því að skv. lögbókinni er Ólafur Jóhannesson, fv. formaður Framsóknarflokksins, höfundur verðtryggingarinnar. Verðtryggingin var leidd í lög snemma árs 1979 og lögin jafnan kennd við höfund sinn – kölluð Ólafslög – enda kvaðst Ólafur hafa samið frumvarpið »við eldhúsborðið heima hjá sér«. Þótt bæði ég og aðrir hafi véfengt höfundarrétt lagaprófessorsins að þessari frumvarpssmíð, hefur það lítinn árangur borið.
…
En þótt Ólafi Jóhannessyni, Fljótamanni og formanni Framsóknarflokksins, hafi áreiðanlega gengið gott eitt til með setningu Ólafslaga, var lausnin ekki gallalaus. Reyndar átti þetta ævinlega að vera tímabundin ráðstöfun.
Merkilegt hvað þáttur Ólafs heitins í setningu verðtryggingarlaganna jókst samkvæmt þessu á tveimur árum…