Fyrir um áratug byrjaði Nickelodeon að framleiða teinkimyndaþættina um Dóru ferðalang. Allir foreldrar ungra barna vita að Dóru-þættirnir svínvirka, þótt vissulega sé ekki gaman að fá suma lagstúfana á heilann. Grísirnir elska þetta sjónvarpsefni og geta horft undir drep.
Dóra er dökk yfirlitum og án þess að það komi beinlínis fram, má ætla að hún sé ættuð frá Rómönsku Ameríku. (Þannig bárust um daginn fréttir af bandarískum mannréttindasamtökum sem hafa gert Dóru að einkennistákni baráttu sinnar undir slagorðinu „Dóra er ólöglegur innflytjandi“. Og vei þeim stjórnmálamannai sem myndi reka Dóru úr landi…)
Dóra á í það minnsta ýmsa vini sem hafa suðrænt litaraft og tala misgóða ensku. Sumir þylja bara einfaldar setningar á spænsku. Aðrir tala ensku, en skjóta öðru hvoru inn einu og einu spænsku orði.
Svona tungumálausli er ekki óþekktur í barnaefni. Þannig var eitt kvikindið af Teletöbbýunum látið tala lýtalausa kantónsku í upphaflegu þáttunum frá BBC. Væntanlega hefur einhver hjörð pedagóka, þroskaþjálfa og barnasálfræðinga lagt blessun sína yfir þessa tilhögun eins og allt annað í þáttunum. Og örugglega eru til einhverjar kenningar um að þetta auki skilning barna á eðli og tilvist annarra tungumála.
Við talsetningu þessara þátta yfir á íslensku, hefur spænskunni verið skipt út fyrir ensku. Aukapersónurnar sletta því ensku eins og í akkorði. Það er afar kyndugt og hvimleitt á að hlýða.
Dóruþættirnir eru reyndar ekki verstir með þetta. Verri eru þættir sem augljóslega eru að leita í þeirra smiðju, s.s. einn sem er augljós tilraun til að blanda saman Dóru og Bubba byggi – með aðalpersónu sem er völundur í höndunum og á mikið safn talandi verkfæra og vina sem skipta yfir í enskuna lon og don.
Afleiðingin eru samtalsslitrur eins og sjá má í titli þessarar færslu. Upp á þetta er börnum boðið í sjónvarpinu í hverri einustu viku – krökkunum til afþreyingar en mér til skapraunar.
Ég velti því fyrir mér hvort kennslufræðin á bak við það að láta persónur í bandarísku barnaefni sletta spænsku yfirfærist sjálfkrafa yfir á að sletta ensku í íslenskum barnatíma? Eru krakkar á jafnlitlu málsvæði og því íslenska ekki sífellt með ensku í eyrunum? Er þeim þá sérstakur greiði gerður með hrognamæltum teiknimyndapersónum til viðbótar við allt hitt? – Hvað segja kennarar við þessu?