Pétur Gunnarsson frændi minn skrifar lítinn fréttamola aftan á Fréttablaðið í dag, sem hefur einkum þann tilgang að koma því að í tíunda skipti að Helgi Pétursson Ríó tríó-kempa sé faðir aðstoðarkonu borgarstjóra. Hann notar tækifærið til að endurtaka samanburðinn á því hversu margir starfi við almannatengsl hjá Orkuveitunni miðað við stærstu almannatengslafyrirtæki landsins.
Þetta er billegur samanburður, eins og Pétur veit sjálfur. Auðvitað eru ekki tuttugu Ómarar R. Valdimarssynir að vinna hjá Orkuveitunni, sem keppast við að semja fréttatilkynningar og búa til Power point-glærur (eða hvað það nú er sem almannatenglar gera?) Almannatengsl er einfaldlega nafnið á einu af mörgum sviðum Orkuveitunnar og er raunar hálfgerður safnhaugur sem hefur að geyma fjölbreytt og óskyld verkefni.
Þannig er bóka- og skjalasafn Orkuveitunnar hluti að almannatengslasviðinu. Dettur nokkrum annað í hug en að skjalasafn fyrirtækis eins og Orkuveitunnar sé tröllaukið? Fyrirtækið þarf að halda utan um ógrynni viðskiptasamninga, skjöl varðandi tækjabúnað, lóðir, lendur o.s.frv. Undir þessum hatti er t.d. líka póstur fyrirtækisins. Orkuveitunni, með sína mörg hundruð starfsmenn, berst vitaskuld ókjör af pósti sem koma þarf á rétta staði og skrá inn í skjalakerfið. Eru það almannatengsl?
Einna stærsti einstaki hópurinn innan almannatengslasviðsins eru starfsmennirnir í gestamóttökunni í Hellisheiðarvirkjun. Þótt ágúst sé bara rétt rúmlega hálfnaður, þá hafa þegar milli 70 og 80 þúsund manns heimsótt virkjunina. Það eru ýmsir snúningar sem fylgja því að taka á móti tugþúsundum gesta.
Það má auðvitað vel hugsa sér að skipuleggja þessa mótttökustarfsemi með öðrum hætti, t.d. með því að innheimta aðgangseyri af gestum. Samanburðinn við það hvort Gunnar Steinn Pálsson sé með fleiri eða færri í vinnu skil ég hins vegar ekki.
Annars er blaðamaðurinn óheppinn að hafa ekki skrifað þennan fréttamola fyrir rúmu ári. Þá var almannatengsladeildin og umsýsla fasteigna eitt og sama sviðið. Þá voru t.d. allir húsverðir og ræstingafólk fyrirtækisins hluti af sviðinu. Kannski hefðum við þá getað borið okkur saman við stærstu almannatengslafyrirtæki á Norðurlöndum?
Áður en þessum deildum var skipt upp í tvö svið, þá kom það oft til tals að færa garðyrkjudeildina undir sama hatt. Það hefði verið frábært – því á hverju sumri ræður Orkuveitan tugi ungmenna til að slá gras, reyta arfa og planta trjám. Hugsið ykkur bara ef við hefðum getað skilgreint þau öll sem almannatengla! Þá hefði sviðið okkar mögulega orðið stærsta almannatengslafyrirtæki Vesturlanda. Og þegar allt þetta fólk hefði gengið í Félag íslenskra almannatengsla, þá fyrst hefði Andrés Jónsson getað orðið sá verkalýðsleiðtogi sem hann á skilið.