Inn og út um gluggann og alltaf sömu leið…

Það má treysta á að sumir hlutir breytist á nokkurra ára fresti. Um árabil voru það þekkt sannindi að kornabörn ættu að sofa á maganum – allt annað væri beinlínis stórhættulegt. Svo kom tímabil þar sem börnin áttu að liggja á bakinu, ef ekki ætti illa að fara. Og svo aftur á maganum o.s.frv. Tvennt má þó treysta á í þessum fræðum: i) að kenningarnar breytast á nokkurra ára eða áratuga fresti & ii) að í hvert sinn sem breytt er um stefnu er sú nýja kynnt sem hin endanlega og rétta vísindalega niðurstaða.

Stjórnunarfræðin eru morandi af dæmum sem þessum. Í nútímafyrirtækjum má treysta því að á nokkurra ára fresti séu umhverfismálin eða jafnréttismálin felld undir gæðastjórann – og haft til marks um mikilvægi þessara mála, enda séu þau klárlega gæðamál. Nokkrum árum síðar eru umhverfis- eða jafnréttismálin svo skilin frá og sett undir sérstakan stjórnanda og það aftur haft til marks um hversu mikilvæg þau séu talin vera. Inn og út um gluggann og alltaf sömu leið…

Skemmtilegt dæmi á þessum nótum má finna í Samráðsvettvangsskýrslunni sem nokkuð hefur verið rætt um síðustu daga. Sem vænta mátti staðnæmdust flestir við þá hluta skýrslunnar sem fjalla um hvers kyns sameiningar (sveitarfélög, framhaldsskólar, sýslumannsembætti). Það er í sjálfu sér ekki nema mannlegt. Áhugaverðara er þó að sjá hvar skýrsluhöfundar telja sig finna bestu leiðina til að spara í ríkisrekstrinum: í innkaupastefnunni.

„Nýtt innkaupaferli“ og „heildstæð innkaupastefna“ eru hugtök sem hljóma vel og afskaplega nútímalega. Hver getur verið á móti heildstæðri innkaupastefnu eða viljað ríghalda í gömlu innkaupaferlin? Ekki nokkur maður!

En hvað merkja frasarnir? Jú, nú er ekki lengur í tísku að láta barnið liggja á bakinu heldur á að snúa því á magann. Í tuttugu ár hefur kennisetningin verið sú að leggja niður eða draga úr umsvifum innkaupastofnana á vegum hins opinbera. Lyfjaverslun ríkisins er gott dæmi um þetta, en ýmis fleiri mætti telja til úr rekstri ríkis og sveitarfélaga. Talað var hæðnislega um vitleysuna sem fælist í því að láta skriffinna kaupa miðlægt inn fyrir stofnanir með ólíkar þarfir og sem þeir þekktu ekkert til í. Miðlæg innkaup voru sögð ýta undir spillingu, draga úr samkeppni og koma að lokum bæði skattgreiðendum og neytendum almennt illa. Í tuttugu ár var kenningin sú að best væri að gera stjórnendur opinberra fyrirtækja sem sjálfstæðasta og gefa þeim sem mest frelsi til að  reka stofnanir sínar innan fjárheimilda og þar með að sinna sjálfir innkaupum um sem flest.

Nú er ég ekki að segja að ég sé ósammála niðurstöðu skýrslunnar. Þvert á móti! Gamli kampavínssósíalistinn er alltaf svag fyrir öflugum innkaupastofnunum ríkisins… En það er samt kátlegt að sjá enn eina kúvendinguna rökstudda sem það nýjasta og snjallasta í bransanum og það jafnvel af sömu mönnum og töluðu af sama krafti fyrir hinni pólitíkinni.