14. september 1991. Fram 3 : ÍBV 0
Mér þykir nokkuð vænt um Víkinga. Held að það sé nokkuð almenn afstaða hjá Frömurum, í það minnsta hef ég varla hitt nokkurn mann úr okkar röðum sem er í nöp við Víking. Það er enginn hörgull á Valshöturum, menn sem er illa við KR, Fylkismenn eiga sína andstæðinga og nokkrir (þó ekki margir) láta Þrótt fara í taugarnar á sér. En Víkinga? Njah…
Á níunda áratugnum fór ég á allnokkra Víkingsleiki. Frikki Atla vinur minn var mikill Víkingur og við fórum stundum saman á leiki. Ég fagnaði því innilega þegar Víkingarnir komust aftur upp í efstu deild haustið 1987.
Sumarið 1991 var búist við því að Fram, KR og Valur berðust um titilinn. Víkingunum var spáð fjórða sæti fyrir mót og hefðu menn væntanlega verið þrælsáttir með þann árangur fyrirfram. Hálft liðið var skipað gömlum Frömurum, sem ýmist voru ungir og ekki taldir fullbúnir í Íslandsmeistaraliðið í Safamýrinni eða komnir á seinni hluta ferilsins.
Gummi Steins var í framlínunni og minn maður, Þorsteinn Þorsteinsson, í vörninni. Helgarnir tveir (Bjarnason og Björgvinsson) voru þarna líka, sem og Hólmsteinn Jónasson og Marteinn Guðgeirsson sem báðir höfðu verið í herbúðum Fram. Brandarar um b-lið Fram heyrðust nokkrir þarna um sumarið.
Í sjöundu umferð unnum við Víkinga með tveimur mörkum Jóns Erlings Ragnarssonar. Skildum Víkinga eftir í fjórða neðsta sæti, fáeinum stigum frá fallsæti. Eftir leikinn stappaði ég stálinu í Frikka og sagði honum að hafa ekki áhyggjur. Liðið hans væri of gott til að falla.
Og sú varð raunin. Víkingar sigldu eins og kafbátur upp töfluna. Í þrettándu umferð töpuðu KR-ingar fyrir Valsmönnum á meðan Víkingar unni ÍBV 6:0. Upp frá því varð þetta tveggja hesta hlaup gömlu systraliðanna úr miðbænum (Víkingur var á sínum tíma stofnaður af litlu bræðrum strákanna sem stofnuðu Fram).
Víkingar unnu 2:0 á Laugardalsvelli í seinni viðureign liðanna og komust í bílstjórasætið í einvíginu. Framarar hefðu þó farið langleiðina með að tryggja sér meistaratitilinn ef Gunnar Oddsson hefði ekki skorað jöfnunarmark á hundblautum KR-velli í næstu umferð.
Liðin voru því jöfn fyrir lokaumferðina. Víkingur með þrettán mörk í plús og Framarar ellefu. Víkingar voru þó með pálmann í höndunum – enda útileikur í Garðinum gegn kolföllnu Víðisliði til góða. Fram mætti Eyjamönnum á Laugardalsvelli.
Allir vita hvað gerðist næst. Taugaveiklaðir Víkingar fjölmenntu í Garðinn (opinberar áhorfendatölur segja þó að ekki hafi verið nema 756 á vellinum, sem styður enn þá kenningu mína að þessar tölur hafi verið kerfisbundið vanáætlaðar á þessum árum en ofáætlaðar í dag). Víðir komst yfir snemma leiks og hélt forystunni í hálfleik. Þrjú Víkingsmörk á fimm mínútna kafla um miðjan seinni hálfleikinn tryggði röndóttum þó titilinn.
Það var samt eiginlega í Laugardalnum sem úrslitin réðust. Eyjamenn pökkuðu í vörn frá fyrstu mínútu, staðráðnir í því einu að fá ekki á baukinn. Þeir voru í nauðvörn allan fyrri hálfleikinn og eftir hálftíma leik hefði staðan hæglega getað verið 4:0. Einhvern veginn sluppu gestirnir þó inn í klefa með bara tvö mörk á bakinu, Kristinn R. Jónsson og Jón Erling skoruðu. Jón Erling skoraði aftur á upphafsmínútum seinni hálfleiksins, en síðan ekki söguna meir.
Lokatölur urðu 3:0, þótt 7:0 hefði kannski gefið réttari mynd af gangi leiksins. En samt upplifðum við áhorfendurnir það sem svo að leikmennirnir hefðu ekki lagt sig alveg nógu mikið fram – og að vitneskjan um forystu Víðismanna í um klukkutíma skeið hafi orðið til þess að liðið tók fótinn af bremsunni. Ég var að minnsta kosti sannfærður um að ef Víkingar hefðu skorað strax í upphafi hefði Framliðið unnið með tvöfalt meiri mun, svo slappir voru Eyjamenn.
Það var ekkert Siggi-Saggi sungið í leikslok og stemningin skrítin. Eitthvað aulalegt við að vinna 3:0 en finnast maður hafa klúðrað þessu. En þrátt fyrir það, var engin jarðafararstemning á pöllunum. Fram hafði unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla á undangengnum sex árum og engum datt annað í hug en að nokkrir í viðbót myndu fylgja á allra næstu árum. Mér fannst ég því alveg getað unað Víkingum með Gumma Steins og Þorsteini Þorsteinssyni örlítils öskubuskuævintýris…
Ég er ekki viss um að ég hefði verið jafn örlátur með snefil af skyggnigáfu.
(Mörk Fram: Kristinn R. Jónsson, Jón Erling Ragnarsson 2)