Fótboltasaga mín 84/100: Vefsíðan

4. ágúst 2013. Fram 2 : Breiðablik 1

Konan mín er frá Neskaupstað. Þótt Steinunn hafi að mestu alist upp á höfuðborgarsvæðinu er hún í hjarta sínu Norðfirðingur. Þar eyddi hún sumrunum, þar bjuggu margir bestu vinir hennar og þaðan gerir tengdapabbi út trilluna sína. Um leið og við Steinunn tókum saman varð ljóst að ég ætti eftir að verja drjúgum tíma ár hvert fyrir austan, einkum eftir að grísirnir komu til sögunnar.

Við förum austur lágmark einu sinni á ári. Það er oftast í tengslum við verslunarmannahelgi og Neistaflug. Börnin fara í hoppukastala, horfa á Gunna og Felix og leika við vini sína. Við móðirin liggjum og sofum til að hlaða batteríin og höfum ekki minnsta samviskubit þótt afinn eyði endalausum tíma í að leika við krakkana, tína með þeim ber uppí fjalli eða kaupa nammi í sjoppunni. Er það ekki hluti af starfslýsingu þess að vera afi?

Ferðir austur um verslunarmannahelgi eru líka skynsamlegar útfrá fótboltanum. Yfirleitt get ég tímasett þær þannig að það rekist ekki á við deildarleiki – nema í mesta lagi einn. Og svo eru undanúrslitaleikirnir í bikarnum oft leiknir oní verslunarmannahelginni.

Sú var raunin sumarið 2013. Reyndar þurfti að leika á sunnudegi um verslunarmannahelgina vegna þátttöku andstæðinganna í Evrópukeppni. Ég var fyrir austan og Fram átti bikarleik gegn Breiðabliki í undanúrslitum.

Undanúrslitaleikir hafa alltaf sérstaka stöðu í huga manns. Sá sem tapar undanúrslitaleik getur strax daginn eftir látið eins og úrslitin skipti engu. Sá sem vinnur er kominn í úrslitaleik með gróðavon og fári.

Ég skal játa að ég íhugaði að fljúga heim – að láta skutla mér upp á Egilsstaði og skjótast í leikinn. Það hefði ekki verið ókeypis og ekki stuðlað að miklum vinsældum mínum á heimavígstöðvunum.

En sem betur fer var leikurinn í beinni útsendingu. Reyndar hjá 365 miðlum og ég virtist engan þekkja sem hefði slíka útsendingu. En útsending á Stöð 2 sport þýddi að leikurinn myndi líklega rata inn á erlendar útsendingarsíður.

Ég fann straum á rússneskri síðu og mátti þola auglýsingaglugga með vafasömum tilboðum og hökt á útsendingunni, einkum þegar virtist ætla að draga til tíðinda. Og í hvert sinn sem myndin fraus þurfti ég aftur að sitja undir tuttugu sekúndna tölvuleikjaauglýsingu.

Fram tók á móti Breiðablik í Laugardalnum og Blikaliðið var nýlent eftir erfiðan útileik í Evrópudeildinni eða öllu heldur strembið ferðalag frá Langtíburtistan. Og Blikarnir virtust ekki almennilega mættir til leiks í upphafi. Vörnin þeirra virkaði þung, sendingar voru misráðnar og svo fóru Kópavogsbúar alltaf á taugum þegar Kristinn Ingi fékk boltann og komst á skrið.

Reyndar var Kristinn Ingi hálfmeiddur allt þetta sumar og aldrei nálægt því að vera í þeim toppklassa sem hann var sumarið 2012. En orðsporið dugði og ofurkappið sem andstæðingar Framara lögðu á að passa Kristinn Inga gerði það að verkum að aðrir leikmenn fengu frírra spil.

Kristinn Ingi skoraði raunar fyrsta markið eftir tæpar tíu mínútur, en það var ekki eftir skyndisókn heldur hirti hann frákast frá Gunnleifi sem varið hafði skot frá Hólmberti Friðjónssyni. Almarr Ormarrsson var hins vegar bestur í Framliðinu og tókst ítrekað að koma sér í færi. Í einu slíku, undir lok fyrri hálfleiks var brotið á honum og víti dæmt. Hólmbert greip boltann, þrátt fyrir að vera ekki augljós vítaskytta og skoraði.

Í seinni hálfleik dró Framliðið sig aftur á völlinn. Blikarnir sóttu og sóttu, en sterk vörn og góður leikur Ögmundar í markinu reyndist þeim um megn. Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka gerði Alan Lowing hins vegar fágæt mistök og einn hvítklæddur Kópavogsbúinn slapp einn í gegn og minnkaði muninn. – Það var þó gleðilegt að menn hefðu kveikt á því að setja annað liðið í varabúning. Stundum hafa Fram og Breiðablik mæst í bláu og grænu búningunum og þá er ekkert grín fyrir okkur gamla fólkið að greina á milli.

Síðustu tuttugu mínúturnar reyndu Breiðabliksmenn að ná jöfnunarmarkinu og voru svo sem ekki fjarri því – þótt sennilega hefði það reynst Pyrrhosarsigur. Ungmennafélagið var orðið kúguppgefið í lok nítú mínútnanna og hefði ekki haft neitt í framlengingu að gera. Fram var komið í bikarúrslitaleik hálfum mánuði síðar. Meira um það seinna.

(Mörk Fram: Kristinn Ingi Halldórsson, Hólmbert Aron Friðjónsson. Mark Breiðabliks: Árni Vilhjálmsson)

e.s. Kurteisleg ábending til mótanefndar KSÍ: er einhver séns að fá leik Fjarðabyggðar og Fram í grennd við verslunarmannahelgina næsta sumar?