Ó, hvað karlinn var flottur á tónleikunum í kvöld. Frábærir tónlistarmenn í bandinu með honum og flutningurinn var miklu rokkaðri en ég átti von á.
Tvö lög vantaði: The Last of the International Playboys & Every day is like Sunday. Annars fínt.
Upphitunarhljómsveitin var hins vegar eitthvað það leiðinlegasta sem ég hef horft upp á á sviði. Palli Hilmars kallaði þetta draslútgáfu af Daisy Chainsaw. Ég varð strax sár fyrir hönd Daisy Chainsaw, sem var (er?) fínt band.
# # # # # # # # # # # # #
Vondur dagur í fótboltanum. Ekki orð um það meir.
# # # # # # # # # # # # #
Gluggaði í Grapevine-blaðið í dag. Þar er í lesendabréfadálkinum kostulegt bréf frá útgáfustjóra einhvers forlags sem ber sig aumlega yfir ritdómi ummatreiðslubók sem kom út á þess vegum. Ritdómarinn hafði víst skammast yfir vondri ensku í textanum, en ef marka má forleggjarann var það allt með ráðum gert að laga ekki textann frá höfundum – því það þjónaði betur stemningunni í henni… eða eitthvað álíka.
Kostuleg bréfaskipti.
# # # # # # # # # # # # #
Fyrr í kvöld horfði ég á X-files þátt um veru sem var hálf manneskja en hálf flatormur. Þetta kallaði fram nettan aulahroll.
Það er undarlegt til þess að hugsa að á sínum tíma fannst manni þetta tímamótaþættir. Á árdaga Internetsins var Dana Andrews aðal-netbeibið og vann Pamelu í síðuflettingum á leitarvélunum. Núna er staðan 28 milljónir gegn 440 þúsund fyrir Pamelu. Ef bara er farið í myndaleitina er munurinn ennþá meiri og flestar Dönu-myndirnar hvort sem er af samnefndri leikkonu frá miðri síðustu öld. Heimur versnandi fer.