Um daginn gerðist ég áskrifandi að nýja tímaritinu hans Illuga Jökulssonar, Sagan öll. Þetta er í raun sagnfræðiútgáfan af Lifandi vísindum.
Ég er harla ánægður með þetta fyrsta blað. Þetta mun höfða til mjög breiðs hóps. Sjálfur tel ég mig vel heima í sagnfræðinni, en fann margt fróðlegt. Ef ég hefði verið tólf ára, hefði mér fundist blaðið æði!
Nú er bara að kaupa möppur og binda þetta inn, til að tryggja að Ólína geti drukkið blöðin í sig eftir áratug eða svo. Ekki viljum við að hún álpist í mannfræði eins og mamma hennar, þegar hún getur orðið vísinda- og tæknisagnfræðingur…
Á Sögunni allri er sagt frá því að Ingólfur Arnarsson kunni að hafa sest að í Reykjavík til rostungsveiða. Megi mannýgur rostungur ráðast á Moggabloggið!
# # # # # # # # # # # # #
Okkur Luton-mönnum var skellt niður á jörðina eftir sigurleik þriðjudagsins. Við töpuðum úti gegn Crystal Palace, meðan Hull vann óvænt. Við erum á nýjan leik einu stigi frá falli. Á móti kemur að Southend og Leeds sitja sem fastast á botninum. Ef þau dragast aftur úr, verður þetta kannski fjögurra liða barátta um að losna við eitt fallsæti.
Eftir landsfundarsetu fyrripart dags sótti ég Ólínu til ömmu sinnar og afa. Tók stelpuna með mér í Egilshöll, þar sem Framarar mættu Skagamönnum í deildarbikarnum. Reyndar svaf barnið á öxlinni á mér nær allan leikinn eða rétt dormaði. Er samt ekki fjarri því að hún hafi glaðst yfir sigri okkar manna.
Fyrra markið sá ég raunar ekki, það var sjálfsmark. Jónas Grani skoraði það síðara. Hann var eins rangstæður og mest mátti vera. Guðjón Þórðarson var ævareiður út í línuvarðarræfilinn. Megi mannýgur Skagaþjálfari bíta Moggabloggið!