Fyrir allnokkrum vikum gerði Blaðið skoðanakönnun, sem var svo uppistaðan í forsíðufréttum nokkra daga í röð. Þá var tilkynnt að Blaðið ætlaði að standa fyrir reglulegum könnunum af þessu tagi.
Þessi fyrsta könnun fór nú ekki vel af stað og fékk allnokkra gagnrýni fyrir aðferðafræði. Ef ég man rétt byggðist könnunin ekki á fyrirframákveðnu úrtaki – heldur var hringt og hringt þar til svör höfðu fengist frá 800 manns. Það þykja víst ekki góð vísindi í þessum fræðum. (Skilst mér – sjálfur veit ég afar lítið um aðferðafræði skoðanakannana.)
Nú veiti ég því athygli að Blaðið hefur ekki endurtekið leikinn, sem hefði þó mátt ætla miðað við kannanafárið þessar vikurnar. Getur verið að þessi fyrsta tilraun hafi verið dæmd svo misheppnuð að hugmyndin um skoðanakannanir á vegum þess hafi verið slegnar af?
Ekki má þó túlka þessi skrif sem svo að ég sé að kalla eftir fleiri skoðanakönnunum eða framkvæmdaraðilum þeirra – nóg er nú samt.
# # # # # # # # # # # # #
Það er gleðidagur á Mánagötunni. Á dag fáum við nefnilega græna sorptunnu frá Gámaþjónustunni. Þrengslin í eldhúsinu okkar hafa gert það að verkum að öll sorpflokkun hefur verið erfið – eða öllu heldur, að við höfum þurft að fara miklu örar með gler-, málm- og pappaúrgang á Sorpu en æskilegt væri. Með grænni tunnu fyrir utan húsið verður þetta allt viðráðanlegra.
Breytum Moggablogginu í lífrænan úrgang!