Mál rúmensku harmonikkuleikaranna rifjar upp fimm ára gamalt mál fólks af sama uppruna sem vísað var héðan. Þá skrifuðum við Palli Hilmars grein á Múrinn sem nefndist Er hægt að skila þessari þjóð?
Það er nú eitt og annað í henni sem enn á við.
# # # # # # # # # # # # #
Undirskrift borgarstjóra, menntamálaráðherra og rektors Listaháskólans um lóð í Vatnsmýrinni í dag er hið undarlegasta mál.
i) Á fyrsta lagi er í gildi samkomulag um að þarna skuli Náttúruminjasafn rísa, enda lóðin við hlið þeirrar byggingar sem hýsir kennslu í lífvísindum við Hí. Sama dag er tilkynnt um ráðningu forstöðumanns Náttúruminjasafnsins, svo ekki var hann með í ráðum.
ii) Það er ekki að sjá að Háskóli Íslands hafi verið sérstaklega með í ráðum. Á gegnum tíðina hefur HÁ litið á allan þennan hluta Vatnsmýrarinnar sem mögulegt framtíðarathafnasvæði sitt. Eitt stykki Listaháskóli á þessum stað mun hafa áhrif á skipulag svæðisins, m.a. varðandi bílastæðamál, umferð o.fl.
iii) Gott og vel – segjum sem svo að borgin og menntamálaráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegra væri að nýta plássið undir háskólastofnun en safn, þá er samt skringilegt að taka þessa ákvörðun áður en búið er að útfæra hvort og þá hvernig Kennaraháskólinn flyst á Háskólasvæðið.
iv) Sérkennilegast af öllu er þó að samningsaðilar, einkum rektor LHí, virðast líta á það sem sjálfsagðan hlut að skólinn geti selt lóðina undir óskylda starfsemi og notað söluandvirðið til að koma sér fyrir annars staðar á miðbæjarsvæðinu. Þetta hlýtur að teljast mjög óhefðbundið í tengslum við slíkar gjafir.
Best hefði verið að mínu mati að hrinda í framkvæmd þeirri hugmynd að flytja Iðnskólann í Reykjavík í nýtt og hentugra húsnæði annars staðar og koma LHÁ fyrir í húsum IR á Skólavörðuholti – steinsnar frá flestum helstu menningarstofnunum þjóðarinnar.
# # # # # # # # # # # # #
Svakalega var Guðfinna Ragnarsdóttir slöpp í umræðuþættinum um umhverfismál í sjónvarpinu í kvöld. Sjálfur þátturinn risti raunar ótrúlega grunnt og skánaði ekki við spurningarnar úr sal.
Ég læt uppstillinguna á sviðinu í þessum þáttum fara endalaust í taugarnar á mér. Af hverju að hafa ríkisstjórnarflokkana öðru megin og hina fjóra andspænis þeim. Þetta væri miklu dýnamískara ef andstæðingar sætu hlið við hlið.
# # # # # # # # # # # # #
Queens Park er komið í úrslitaleikinn í umspilinu í neðstu deildinni í Skotlandi. Þessu fagna allir knattspyrnuáhugamenn, enda Queens Park hiklaust eitt að tíu sögufrægustu fótboltaliðum í heimi.
# # # # # # # # # # # # #
Veðurspáin bendir til blíðviðris á kjördag. Það mun vera gott fyrir sitjandi stjórnvöld.
En hvaða áhrif mun söngvakeppnin hafa? Munu Íslendingar ekki snúast gegn Evrópusambandinu og þar með Samfylkingunni þegar Eiríkur tapar á fimmtudaginn? Það er harlalíklegt.
# # # # # # # # # # # # #
Fórum í mat til mömmu og pabba í Frostaskjólið. Þau búa í Reykjavík-suður og höfðu fengið kosningabækling frá Frjálslynda flokknum. Á baksíðu hans er risastór mynd af Kringlumýrarbrautinni, tekinn yfir Bústaðavegsbrúnni.
Það er gott að vita að til sé fólk sem getur séð fegurðina í öllu. Rómantíkin í þessari malbiks- og steypumynd fór þó alveg framhjá mér.
Nær væri að henda Moggablogginu framaf brúnni.