Á útvarpsfréttunum er sagt frá því að byssumaður utan af landi verði líklega kærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa skotið á konuna sína. Þetta hljómar skringilega.
Nú er ég fjarri því að vera lögfræðingur – hvað þá sérfræðingur á sviði refsiréttar – en samkvæmt minni máltilfinningu heiti það morð eða morðtilræði ef maður drepur eða reynir að drepa annan mann. Manndráp vísar þá til þess ef maður ræður einhverjum bana fyrir slysni eða með óvarkárni. Ekki satt?
Tilraun til manndráps gengur samkvæmt þessari skilgreiningu ekki upp – ekki frekar en menn geti viljandi framkvæmt eitthvað óvart…
Eða hvað?
# # # # # # # # # # # # #
Nýjasta hefti Sögunnar allrar er ágæt lesing. Þar má meðal annars fræðast um Spánverjavígin, líklega ljótasta níðingsverk Íslandssögunnar. Alltaf fannst mér það undarleg ráðstöfun að nefna bar í miðbænum eftir níðingnum Ara frá Ögri.
Megi Moggabloggið hljóta örlög basknesku skipbrotsmannanna.