Á þessum rituðum orðum er lögreglubíll fyrir utan húsið. Fyrir tíu mínútum síðan heyrðust köll og brothljóð. Eitthvert rustamennið hefur séð ástæðu til að kasta grjóti inn um kjallararúðu í húsinu skáhallt á móti. Hópur fólks hefur safnast saman í kringum lögguna, sem veifar vasaljósum í kringum sig.
Þar sem ég hef horft á ótal lögguþætti treysti ég þvi að rannsóknarteymið muni mæta á svæðið, finna hár, sígarettustubb með munnvatni eða húðflögu. Skyndi-DNAgreining og samkeyrsla við lífssýnagagnabanka lögreglunnar mun leiða til þess að grjótkastarinn verður handtekinn innan 12 klukkustunda.
Fyrr í kvöld þurfti lögreglan einnig að koma í Mánagötuna. Nágranni hafði gleymt að setja bílinn sinn í handbremsu og hann rann (nánast á jafnsléttu) beint inn í hurðina á þriggja daga gömlum jeppa sem lagt var hinu meginn við götuna. Eigandinn var frekar hvekktur.
# # # # # # # # # # # # #
Fyrr í kvöld fórum við feðgarnir í göngutúr. Við stálumst inn á framkvæmdasvæðið þar sem Orkuveitan vinnur að endurbótum á vatnstönkunum á Litlu-Hlíð, þar eru mögnuð mannvirki.
Sá mér til nokkurra vonbrigða að glæsilegar súlur sem stóðu í tönkunum miðjum hafa verið felldar í tengslum við þakviðgerðirnar. Vonandi er ætlunin að endurreisa þær og koma geyminum í sem upprunalegast horf – þetta er nefnilega eitt glæsilegasta mannvirki borgarinnar, þótt það sé eðli málsins samkvæmt flestum hulið.
# # # # # # # # # # # # #
Fyrsti bleyjulausi dagurinn á leikskólanum var í dag. Ólína er rígmontin og segir reglulega í óspurðum fréttum að hún sé stór stelpa.
Hún má svo sem vera góð með sig – en það mun þurfa að þvo öllu meira en venjulega næstu daga.
# # # # # # # # # # # # #
Skoðaði Höfðaborgarreitinn þar sem mínir gömlu vinnuveitendur í Eykt eru að byggja skrifstofuskrímslið. Hryllilega er þetta stórt!
Er ekki rétt skilið hjá mér að borgin muni leigja stóran hluta af þessu undir stofnanir sínar? Enn einu sinni sannast hversu vitlaus ég er í hagfræði – ég hef t.d. aldrei skilið hvers vegna það þykir afar sniðugt í samfélaginu að einstaklingar og fjölskyldur keppist við að eignast eigin húsnæði – en opinberir aðilar, sem njóta bestu lánskjara og geta haft fólk í vinnu við að sinna fasteignunum, séu í leiguhúsnæði? Væri ekki lógískara ef þetta væri öfugt?
# # # # # # # # # # # # #
Fyrir tímabilið fék Luton Paul Furlong til liðs við sig. Stuðningsmönnunum var illa við hann frá fyrsta degi. Ég áttaði mig ekki alveg á þessari óvild – þótt vissulega sé það nokkuð sérstakt að ráða til sín framherja sem er alveg að verða 39 ára gamall.
Skýringin er hins vegar augljós þegar maður hugsar um það… Furlong hefur leikið með báðum þeim liðum sem stuðningsmenn Luton hata mest: Watford og QPR.
Furlong skoraði reyndar á laugardaginn – en hann mun þurfa nokkur mörk í viðbót til að bræða Hattarana…