Það er merkilegt hvað ungir íslenskir hægrimenn geta verið dyggir varðhundar fyrir Margrét Thatcher og pólitíska arfleið hennar – og eru þar mun harðvítugri en Bretar sjálfir.
Ungur hægrimaður, Hans Haraldsson, gerir gamlan pistil eftir mig að umtalsefni á síðunni sinni. Meðal þess sem hann gagnrýnir mig sérstaklega fyrir, er að halda fram þeirri fásinnu að stjórn hvíta minnihlutans í Suður-Afríku hafi notið sérstaks stuðnings Breta. Á athugasemdakerfinu bætir einhver félagi Hans því við að þetta sé til marks um „algjöra vanþekkingu á pólitískri og efnahagslegri sögu Suður-Afríku“.
Það er alltaf kúnstugt þegar menn gerast kaþólskari en páfinn í vörn fyrir skoðanabræður sína.
Fyrir einu og hálfu ári, skömmu eftir að David Cameron tók við völdum sem formaður íhaldsflokksins, ferðaðist hann til Afríku. Þar vakti mikla athygli þegar formaður breskra íhaldsmanna baðst afsökunar á stuðningi stjórnar Thatcher við Apartheid-stjórnina.
Einhver hefði betur hnippt í hr. Cameron og bent honum á að hann væri að misskilja breska samtímasögu í grundvallaratriðum – og að sagnfræðinemi á Íslandi hefði sýnt fram á að íhaldsflokkurinn þyrfti ekki að skammast sín fyrir neitt.
– – –
Reyndar er kímilegt að lesa röksemdafærslu Hans Haraldssonar í heild sinni, því eftir að hafa svarið fyrir tengsl, stuðning eða samskipti Bandaríkjamanna og Breta við minnihlutastjórnina í Suður-Afríku, hefst hann handa við að útskýra að slík tengsl hafi verið nauðsynleg – enda kalda stríðið verið í fullum gangi og snúist um framtíð siðmenningarinnar.
Er þetta ekki dálítið eins og hjá bóndanum sem var beðinn um að skila hamri, en svaraði því til að hann hefði aldrei séð hamarinn, auk þess sem hann ætti hamarinn sjálfur – og hann hefði verið brotinn þegar hann fékk´ann?