Vaðlaheiðarvegavinnuverkamanna…

…o.s.frv… – Vaðlaheiðargöng eru bara komin á áætlun smkv. fréttatilkynningu í­ dag.

Nú hef ég enga reynslu af því­ að keyra á þessum slóðum að vetrarlagi, en sjálfur hefði ég nú talið ýmsar framkvæmdir brýnni. Sitthvað á höfuðborgarsvæðinu, Suðurstrandarveg og jarðgangagerð fyrir austan og vestan. Þessi göng virðast hins vegar vera tekin fram fyrir í­ röðinni af því­ að hægt er að tala um „einkaframkvæmd“ – sem hljómar töff og nútí­malega, en á endanum er það jú alltaf rí­kið sem borgar. Maður hefði nú einmitt haldið að skuldlaus rí­kissjóður þyrfti ekki að láta einhver byggðasamlög úti á landi lána sér peninga til að ráðast í­ vegaframkvæmdir.

Ég frábið mér hins vegar væl um að Sundabraut í­ þessu samhengi. Þangað til að menn hafa komið sér saman um hvar hún á að liggja og hvernig hún á að vera er ekki hægt að kenna ráðherra um að ekki sé farið í­ framkvæmdir.

# # # # # # # # # # # # #

Það eru góðar fréttir að RÚV hafi tekist að semja um rétt til endurbirtingar á gömlu efni úr safni sí­nu. Það var afar ergilegt að komast að því­ á sí­num tí­ma við spurningasamninguna fyrir Gettu betur, að í­ raun var illa séð þegar maður bað um sí­gilt efni úr fórum Sjónvarpsins því­ að birtingarrétturinn var óljós og kostnaðurinn gat verið svimandi. Þess í­ stað átti maður helst að taka myndir úr bókum eða stela þeim af netinu. Það er slæm nýting á miðlinum.

# # # # # # # # # # # # #

Krakkinn er farinn að koma sér upp tónlistarsmekk. Músí­k er nú skipt upp í­ þrjá flokka. „Stelputónlist“ er skemmtilegust. Það eru yfirleitt lög sem sungin eru af kvenröddum – þótt einhverjir karlar fái að fljóta með. „Strákatónlist“ er ekki spennandi og þriðji flokkurinn eru lög með kvenflytjendum sem falla samt ekki í­ kramið – „konutónlist“.

# # # # # # # # # # # # #

HK – Fram í­ 1. deild kvenna í­ kvöld. Framstelpurnar í­ meiðslavandræðum og taugarnar þandar. Ég hef illan bifur á þessum leik…