Á kvöld var frekar brúnaþungur utanríkisráðherra í Kastljósi að svara spurningum Helga Seljan. Hann spurði hana í hálfgerðu framhjáhlaupi út í NATO-fundinn í Búkarest og samþykktir hans – þar á meðal hvort það samrýmdist hugmyndinni um friðelskandi landið Ísland að ýta undir vígvæðingu og vopnakapphlaup.
Þá fór utanríkisráðherra að flissa og spurði hvaða vitleysa þetta væri – hvort að menn héldu í alvörunni að við og vinaþjóðir okkar á borð við Noreg og Danmörku væru að standa fyrir slíku?
Þessi viðbrögð vekja spurningar um hvort ráðherra lesi ekki sínar eigin samþykktir? Á 46. grein ályktunar fundarins í Búkarest segir þetta (leturbreyting mín):
Transformation is not possible without sufficient, properly prioritised resources. We are committed to continuing to provide, individually and collectively, the resources necessary for our Alliance to perform the tasks we demand from it. Therefore we encourage nations whose defence spending is declining to halt that decline and to aim to increase defence spending in real terms.
Þetta getur nú varla orðið mikið skýrara! Fundurinn í Búkarest hvetur þau ríki, sem hafa á síðustu árum kosið að verja stærri hluta útgjalda sinna til heilbrigðismála, menntamála, umhverfismála eða til að efla innviði samfélagsins – í stað þess að halda áfram að kaupa stærri og dýrari vopn – að snúa við á þeirri braut.
Utanríkisráðherra ætti að lesa eigin ályktanir áður en hún hlær næst hryssingslega að fullgildum spurningum fréttamanna.