Fyrir tuttugu árum efndu SHA síðast til samkomu á Austurvelli á 30. mars. Þá voru fjörutíu ár liðin frá Nató-inngöngunni og aðgerðin var með þeim hætti að hópur leikara og fundargesta leiklásu umræðurnar á þingi 1949.
Ég var í gaggó, en skrópaði ásamt nafna mínum Jónssyni til að mæta og fylgjast með. Mættum svo glaðbeittir í tíma og gáfum upp ástæðu fjarvistarinnar. Þetta var flott aðgerð og minnisstæð.
Á sextíu ára Nató-afmæli kom aldrei annað til greina en að mæta á Austurvöll. Fyrir margt löngu kviknaði sú hugmynd á miðnefndarfundi að gaman væri að slá köttinn úr tunnunni og ákveðið var að hrinda því í framkvæmd.
Það var reyndar fyrst á fimmtudaginn sem farið var að huga að því að redda efninu. íbending barst um hvar kaupa mætti trétunnu og eftir að hafa lagst í símann komst ég að því að á auðu svæði í borginni lægju gaflar af rólu. Þeir voru teknir að láni og Þorvaldur Þorvaldsson, miðnefndarmaður, riggaði upp þverbita.
Rólugálginn var settur upp fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni og tunnan var hengd niður úr honum – eftir að búið var að mála á hana Nató-merkið og fjarlægja miðgjarðirnar. Þorvaldur útbjó sömuleiðis barefli, heljarmikla lurka.
Á upphafi var tilkynnt að nú skyldi hvítliðinn barinn úr tunnunni. Það var loks blikksmiðurinn knái Einar Gunnarsson sem náði tunnunni í sundur með roknahöggi og þá kom í ljós að „hvítliðinn“ var forláta gúmmíkjúklingur úr versluninni Hókus pókus. Honum var svo hnuplað af einhverjum fundargesti – líklega sem miðjagrip.
Ætli það hafi ekki verið svona 200 manns á staðnum – mjög svipað og fyrir 20 árum. Vonandi voru einhverjir gagnfræðaskólanemar í hópnum núna líka…
# # # # # # # # # # # # #
Fyrr í kvöld fékk ég athugasemd við gamla færslu um Darlington frá manni sem segist styðja það lið í enska boltanum. Það styður þá kenningu mína að öll liðin í deildarkeppninni – amk þau sem ekki eru nýfarin að keppa þar – eigi sér íslenska stuðningsmenn. Þessi er eflaust ekki eini Darlington-maðurinn.
Undir eðlilegum kringumstæðum hefði ég fagnað þessum pósti innilega – en núna fann ég til sektarkenndar.
Fyrr um kvöldið hafði ég nefnilega verið að plægja mig í gegnum spjallborðið hjá Darlington-stuðningsmönnum, til að lesa um efnahagslegar hrakfarir liðsins. Það er raunverulegur möguleiki á að félagið lifi ekki þessar hremmingar. Á morgun mun aðilinn sem stýrir félaginu í greiðslustöðvuninni senda frá sér yfirlýsingu – hún mun væntanlega fela í sér lokadagsetningu, sem nýr kaupandi verður að vera fundinn fyrir.
Er þetta ekki hið fullkomna kreppuklám?
Á ljósi þessa, var hálfónotalegt að fá vinalega kveðju frá ókunnum manni sem þykir vænt um Darlington og vill auðvitað ekki að liðið fari á hausinn.
# # # # # # # # # # # # #
Lost er byrjað í sjónvarpinu! Hér eftir verða ekki settir niður fundir á mánudagskvöldum – eða þeim í það minnsta lokið nógu tímanlega til að hægt sé að horfa á plúsnum…