Heilbrigðisyfirvöld bera sig borginmannlega varðandi svínaflensuna. Talað er um strangar viðbragðsáætlanir, samráðsfundi sérfræðinga og geypimagn af lyfjum sem liggi á lager sjúkrahúsanna. Reglulega má heyra viðtöl við faraldursfræðinga sem ræða um spænsku veikina og hvort stóri skellurinn komi í haust.
Á sama tíma hangir uppi blað á hverjum einasta leikskóla Reykjavíkur, undirritað af borgarstjóra eða formanni leikskólaráðs. Þar kemur fram að verið sé að spara í rekstrinum og þess vegna eigi að skipta út bréfþurrkum fyrir handklæði.
Allir sem hafa átt barn á leikskóla vita að þær stofnanir eru öflugasta dreifingarmiðstöð samfélagsins fyrir hvers kyns pestir. Ef heilbrigðisyfirvöld væru í alvörunni hrædd um að svínaflensan geti orðið næsta spænska veikin, þá myndu þau vitaskuld leggja blátt bann við þessari sparnaðaraðgerð borgarinnar. Meðan það er ekki gert, hlýtur maður að fá á tilfinninguna að læknarnir séu bara að spila með í fjölmiðlasirkusnum, gegn betri vitund.
Gaman væri reyndar að vita hversu marga Tamiflu-skammta má kaupa fyrir bréfþurrku-sparnaðinn. Eitthvað segir mér að sá útreikningur sé ekkert sérstaklega þjóðhagslega hagkvæmur.