Eins og það er gaman að stela sigrum á lokamínútum leikja, þá er jafn ömurlegt að tapa á þann hátt. Ég er æfur. Get samt ekki komist hjá því að kenna undarlegum skiptingum um hluta af þessu tapi. Hvers vegna – úr því að hálft Framliðið var gjörsamlega sprungið – var beðið með síðustu skiptinguna þar til fram yfir venjulegan leiktíma? Og hvers vegna að setja Kristinn Tómasson inn þegar Þorbjörn Atli varð að fara út af? Af hverju ekki einhvern sem gat hlaupið. – Fúlt!
* * *
Það er smá huggun í þessum táradal að lesa bloggfærslu kollega Sverris, um hina glæsilegu nýju mynd sem hengd hefur verið upp á safninu. Þetta er einmitt flottasta mynd sem hengd hefur verið upp í safni á Norðurlöndum.
* * *
Á síðustu verslunarferð heimilisins að Mánagötu 24 var ákveðið að svíkja 10-11 við Barónsstíg en versla þess í stað við Hagkaup, Seltjarnarnesi. Illmennin í Hagkaup ákváðu að bregðast þessu trausti með því að selja okkur, hrekklausu fólkinu, útrunnið kjötálegg.
Þar sem styttist í hin raunverulegu mánaðarmót með nýju Visa-tímabili og til að láta helvítin ekki fara með sigur af hólmi, hef ég látið mig hafa það að éta útrunna spægipylsuna í nokkra daga. Ef ég dey úr meltingarfærasjúkdómi þá vita lesendur hvaða súpermarkaði er um að kenna.
* * *
Þegar ég verð aftur ríkur á föstudaginn, með hjálps herra Visa, mun ég kaupa mér mat og bjór. Það verða dýrðardagar.