Það voru stórtíðindi í ensku utandeildinni í kvöld. Stjórn utandeildarinnar samþykkti að mæla með því að Chester City yrði vísað úr keppni eftir að hafa ekki náð að leika tvo síðustu leiki sína (vegna verkfalls leikmanna og skulda við lögregluna í heimabæ sínum). Ef af verður, þýðir þetta nær örugglega endalok þessa 125 ára gamla félags sem getuð hefur af sér marga kunna kappa, Ian Rush þar þekktastur.
Chester situr sem stendur í neðsta sæti með mínus þrjú stig, eftir að hafa byrjað mótið með 25 stig í mínus vegna marháttaðrar fjármálaóreiðu. Svo virðist sem einungis átta leikmenn séu enn á mála hjá félaginu og hafa ekki fengið laun í marga mánuði. Til að fylla töluna yrði væntanlega teflt fram unglingum.
Það er óopinbert leyndarmál að utandeildin var þvinguð til að taka við félaginu af stjórn ensku deildarinnar, sem ekki vildi láta það spyrjast að gamalgróið félag myndi deyja um leið og það félli úr deildinni.
En það er þó ekki sjálfgefið að málinu sé lokið. Stjórn utandeildarinnar hefur ekki vald til að reka félög úr keppni – það getur aðeins formannafundur gert. Hann hefur ekki verið tímasettur, en fram að honum er Chester í keppnisbanni. Formennirnir hafa í raun enga góða ástæðu til að ætla að Chester hafi nokkra möguleika á að ljúka mótinu eða skrapa saman í lið, þökk sé óstjórn glæpamannsins sem á félagið. En önnur sjónarmið kunna að koma hér til álita: ef Chester verður rekið úr keppni nægilega snemma munu nefnilega öll úrslit liðsins núllast út.
Það þýðir að þau félög sem hafa unnið báða leiki sína gegn Chester munu tapa á ákvörðuninni, hin sem hafa bara leikið annan leikinn sjá fram á að mæta auðunnu varaliði ef félagið fær að þrauka en þeir klúbbar sem tapað hafa stigum myndu þá græða. Þetta er því staða sem enskumælandi kenna við kalkúna sem fá að kjósa um hvort flýta eigi jólunum…
Niðurstaða kosningarinnar verður stórfróðleg. Það er hins vegar lítil ástæða til að gráta fyrir hönd stuðningsmannanna. Þeir óskuðu þess að Chester yrði vísað úr keppni og félagið slegið af, svo þeir gætu stofnað nýtt félag á rústum þess líkt of svo mörg önnur dæmi eru um.