Stórmót í frjálsum íþróttum eru eitthvert besta sjónvarpsefni sem til er. Það er hægur vandi að detta niður í margra klukkutíma gláp þegar sleggjukast karla, 3.000 metra hlaup eða kvennalangstökk er í boði. Það er helst gangan og maraþonhlaupin sem ég er ekki að ná uppí, auk þess sem tugþrautir og sjöþrautir eru hvimleiðar – of miklir útreikningar og flókið að keppt sé í tveimur hópum.
Á tengslum við frjálsíþróttamótin ber alltaf nokkuð á kynþáttahyggju þar sem fólk reynir að grípa til líffræðilegra skýringa á velgengni tiltekinna þjóða í einstökum greinum – t.d. að svertingjar séu sérstaklega vel fallnir til að hlaupa. Þetta heyrist ekki síður frá „meðvituðu“ fólki sem er sérstaklega á móti kynþáttafordómum og notar jafnvel sigurgöngu blökkumanna í spretthlaupum sem rök gegn rasisma hvítra manna.
Mér sýnist hins vegar að tölfræði íþróttanna sýni þvert á móti hversu menningarbundinn árangurinn í þeim er. Sum lönd eru einfaldlega alltaf góð í tilteknum greinum og geta furðulítið í öðrum.
Tökum sem dæmi Hvíta-Rússland. Hvers vegna í ósköpunum eru Hvítrússar alltaf góðir í kúlu, kringlu og sleggju? Nágrannar þeirra Finnar eru hins vegar góðir í spjótkasti, en ekki í öðrum kastgreinum. Þetta skýra menn ekki með erfðafræði heldur kúltúr.
Eða þá Kúbumenn. Þeir eru stökkmeistarar – eiga af því er virðist endalaust marga langstökkvara, hástökkvara og þrístökkvara. Miklu fleiri en hin löndin í Karabíska hafinu sem eru aðallega í spretthlaupunum. Og hvers vegna eru Þjóðverjar betri í að hoppa upp í loftið en beint áfram?
ístralir punda út afbragðsíþróttamönnum í flestöllum íþróttagreinum, en hversu margir íþróttamenn koma frá Nýja Sjálandi? Eru einhver rök fyrir því? Ekki líffræðileg í það minnsta.
Eitt af því sem gerir það að verkum að fólk grípur til kynþáttaskýringa á velgengni sumra þjóða tengist mismunandi líkamsbyggingu íþróttamanna eftir svæðum. Þannig virðast þeldökku hlaupararnir frá Norður-Ameríku flestir vera nýkomnir úr vaxtaræktarkeppni. Svo hlaupa þeir við hliðina á Rússum sem eru langir, þvengmjóir og virðast ekki hafa neina vöðva. (Sérstaklega áberandi í kvennaflokki.) Þar kemur í ljós að brjóstvöðvar að hætti Schwartzeneggers eru engin trygging fyrir sigri í 400 metra hlaupi…
Diskúteraði þessi mál heillengi við Sverri og Steinunni á Dillon í gær. Vorum um flest sammála í greiningunni á þessu. Sérstaklega kom okkur þó saman um skýringuna á því hvers vegna Indverjar eiga ekki fleiri toppíþróttamenn en raun ber vitni. – Ef það er eitthvað sem getur fokkað upp möguleikum manns á að ná Nirvana – þá er það að reyna að setja heimsmet…
Meira um frjálsar síðar.