Handbolti/fótbolti

Sígilt umfjöllunarefni á enskum fótboltanördasíðum eru listar yfir menn sem náðu að vera bæði afreksmenn í fótbolta og krikket. Ian Botham er eitt þekktasta dæmið.

Samsvarandi úttekt á Íslandi væri um þá menn sem náð hafa árangri í fótbolta og handbolta. Á upphafsárum íslenska handboltans voru flestir handknattleiksmenn jafnframt í fótboltanum. Með tímanum jókst sérhæfingin – auk þess sem einstök félög einbeittu sér að ólíkum greinum. Haukar og FH voru löngum öflug í handbolta en léleg í fótbolta. KR hefur lengst af verið slappt í handboltanum og sama gildir um Skagamenn.

(Ath.: Þessi umfjöllun vísar bara í karlaboltann. Það er auðvitað fullt af dæmum í kvennaflokknum.)

Framarar eiga líklega flesta einstaklinga sem orðið hafa Íslandsmeistarar í báðum íþróttunum. Allnokkrir hafa náð landsleikjum í bæði handbolta og fótbolta. Ásgeir heitinn Elíasson var t.d. í fótboltanum í Fram og handboltanum í ÍR. Gaman væri að sjá lista yfir þá menn sem náð hafa þeim árangri.

Páll Ólafsson er líklega síðasti maðurinn sem náð hefur að leika A-landsleik í bæði handbolta og fótbolta. Það verður varla gert úr þessu.

Róbert Gunnarsson handboltakappi lék í næstefstu deild í meistaraflokki í fótbolta og er líklega það næsta sem við komumst því í seinni tíð að sjá menn ná árangri í báðum greinum.

Willum Þór Þórsson hefur þjálfað meistaraflokk í bæði handbolta og fótbolta.

Hvert skyldi vera nýjasta dæmið um leikmann sem náð hefur að spila í efstu deild í handknattleik og knattpsyrnu á Íslandi? Jón Kristjánsson Valsari og KA-maður? Spyr sá sem ekki veit.