Víkingur úti: 1/22

Ég hafði látið mig dreyma um að þetta yrði sumarið þar sem ég næði öllum leikjum Framarar á Íslandsmótinu. Að sjálfsögðu rann ég svo á rassinn á fyrsta leik. Rútuferðin á vegum félagsins var blásin af, þar sem svo margir ætluðu að horfa á Framstelpurnar hreppa Íslandsmeistaratitilinn og bílfarið sem ég reddaði mér í staðinn brást á síðustu stundu. Ég hefði keyrt sjálfur, en Ólafsvík er fjári langt í burtu til að hossast einn á bíl auk þess sem leikurinn var í sjónvarpinu og aukabónus að ná að sjá stelpurnar vinna.

Það er samt aldrei það sama að horfa á leik í sjónvarpinu eða mæta á völlinn. Og ekki skánar samanburðurinn þegar sjónvarpsútsendingin tefst um 20 mínútur vegna tæknivandamála. Það er alltaf eitthvað frat við að horfa á fótboltaleik sem er ekki í þráðbeinni útsendingu. Bara vitneskjan um að einhver annars staðar í heiminum viti úrslitin eða að hægt sé að slá þeim upp á textavarpinu ræna mann hluta af upplifuninni.

Reynar er hábölvað að hafa ekki komist til Ólafsvíkur og náð að upplifa fyrsta leik þeirra í efstu deild. Ég er sökker fyrir nýjum liðum í efstu deild, einkum landsbyggðarliðum. Að Ólafsvík eigi lið í efstu deild karla í fótbolta er bráðskemmtilegt. Hver ætli séu annars stærstu sveitarfélögin sem ekki hafa leikið það eftir? Sauðárkrókur og Mosfellsbær?

Við Framarar gátum varla mætt Ólsurum (eða Ólafsvíkur-Víkingum eins og Gaupi kallar þá) á erfiðari tíma. Allur bærinn mættur og leikmenn ákveðnir í að selja sig dýrt. Yrði ekki hissa þótt Víkingsliðið ynni svona fjóra heimaleiki í sumar og tæki inn 3-4 jafntefli í viðbót. Það dugar ekki til að halda sér í deildinni, en þetta verður samt alls enginn skandall.

Ég var ánægður með Framara í leiknum. Ekki það að boltinn hafi verið mikið fyrir augað, en þeir höndluðu ágætlega erfiðar aðstæður og vörnin virðist ætla að halda vel. Nýi Skotinn, Halsman, leit vel út og Ólafur Örn var traustur í miðverðinum. Þegar Viktor Bjarki kemur inn í liðið í stað Jóns Gunnars verður miðjan enn traustari.

Daði Guðmundsson fékk að spila fimm síðustu mínúturnar, sem telur þó sem meistaraflokksleikur og þokar honum enn ofar á listanum yfir leikjahæstu Framara frá upphafi. Það skyldi þó aldrei fara svo að Daði næði þeim titli að endingu?

Maður leiksins: Tja, eigum við ekki bara að segja Bjarni Hólm fyrir ágæta frammistöðu í vörninni og glæsilega afgreiðslu í sigurmarkinu?