Er ég alveg að fokka upp þessari bloggseríu? Best að hreinsa upp gamlar syndir og slá þrjár flugur í einu höggi:
Ég mætti upp á Skaga kvöldið fyrir maraþonræðuna. Það var e.t.v. fífldirfska í ljósi þess að það var rok og frekar kalt. Fékk ekki kvef, en það var það jákvæðasta við leikinn.
Þegar ég skrifaði um fótbolta fyrir Moggann fyrir hundrað árum tók ég leik á Skaganum. Í blaðamannastúkunni var búið að hengja upp blað sem sýndi vindrósir og töflu yfir vindhraða á Skipaskaga og í Reykjavík. Þar voru færð rök fyrir því að í raun væri ekki vindasamt á Skaganum – gott ef það væri ekki meira logn þar en í höfuðborginni. Svona má ljúga með tölfræði.
Það er alltaf rok á Skaganum. Og þetta var einn af þessum leikjum sem einkenndist af veðuraðstæðum. Framarar yfirspiluðu heimamenn í fyrri hálfleik með sterkan vind í bakið. Markvörður Skagamanna var góður, varnarmennirnir heppir og sumir Framararnir óskynsamir (Lennon skaut t.d. ALLTAF á markið).
En leikmenn ÍA eru aldir upp á þessum velli og kunna miklu betur en nokkrir aðrir að spila í þessum veðuraðstæðum. Þeir skoruðu úr sinni einu sókn í fyrri hálfleiknum – á lokasekúndunni. Annað mark fylgdi í kjölfarið snemma í seinni hálfleik. Svo tókst Skagamönnum að drepa leikinn og spilamennska Framara varð sífellt örvæningarfyllri. Framari leiksins: Hólmbert Aron Friðjónsson.
***
Fram og Stjarnan hafa oft átt fjöruga markaleiki. Síðasti leikur á Laugardalsvelli var ekki einn þeirra. Stjörnuliðið í ár er alls ekki eins vel spilandi og skemmtilegt og verið hefur síðustu ár. Er Logi með svona mikið leiðinlegri stíl en Bjarni? Sem fyrr voru Framarar betri í fyrri hálfleik (við erum meistarar fyrri hálfleikjanna í ár) en skoruðu ekki. Hólmbert fékk dauðafæri en nýtti ekki. Stjarnan skapaði lítið en fékk mark upp úr engu þegar Ólafur Örn var að gaufa með boltann í teignum. Ergileg byrjendamistök hjá reyndasta manninum.
Í seinni hálfleik voru Framarar andlausir, sendingar ónákvæmar og ekkert að gerast. Markalaust jafntefli hefði líklega verið sanngjarnast en í raun átti enginn skilið að fá neitt út úr leiknum. Ögmundur markvörður var Framari leiksins sem segir sína sögu.
***
Það er einhvernveginn hálfgert svindl að dragast gegn úrvalsdeildarliði á útivelli í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar og fá „alvöru“ leik á meðan hin liðin trimma á móti hálfgerðum firmaliðum. En á hinn bóginn er líka miklu meira gaman að fara þessa leiðina ef manni tekst að vinna – hvað þá þegar andstæðingarnir eru Valur. Það er fáránlega mikið skemmtilegra að vinna Val en t.d. Fylki.
Það voru fáir á vellinum. Miklu færri mæta á bikarleiki en deildarleiki. Aðstæður hins vegar fínar, þótt það blési dálítið í fyrri hálfleik. Liðsuppstillingin hefðbundin. Kristinn Ingi er enn ekki fyllilega leikfær og byrjaði því á bekknum.
Framliðið var mun betra í fyrri hálfleik. Valsmenn furðuslappir. Þrátt fyrir betri spilamennsku tók sinn tíma að skora fyrsta markið og raunar gerðist það ekki fyrr en Valur var að ná vopnum sínum. Hewson átti glæsilega sendingu fram á Lennon sem náði fínum bolta af kantinum beint í lappirnar á Almarri sem skoraði fínt mark.
Seinni hálfleikurinn var nýbyrjaður þegar Valsmenn fengu víti. Bjarni Hólm greip í einn Valsmanninn að ástæðulitlu og svo sem lítið hægt að kvarta yfir því. 1:1.
Örskömmu síðar sýndist mér Framararnir hefðu átt að fá augljósa vítaspyrnu þegar Hólmbert var felldur í teignum. Hólmbert er búinn að vera helvíti öflugur í sumar og vantar bara herslumuninn í að verða toppleikmaður. Fyrstu mínúturnar eftir jöfnunarmarkið óttaðist ég að Framliðið myndi falla niður í pirring og tuð og Valsmenn virtust ætla að ná völdum á miðjunni. Það breyttist þó fljótlega. Framarar áttu betri sóknir og komust verðskuldað yfir á ný. Aftur átti Hewson lykilsendinguna og Hólmbert skallaði auðveldlega í netið illa valdaður og miklu stærri en allir hinir.
Valsfyrirliðinn var rekinn útaf fyrir að reyna að fiska víti. Það var óþarflega harður dómur, svona eftir á að hyggja.
16-liða úrslitin taka nú við. Útfrá prinsipinu um að vilja dragast gegn liði sem Fram hefur ekki fyrr mætt í KSÍ-móti ætti óskalistinn að vera: 1. Magni heima, 2. Sindri heima, 3. Tindastóll heima. Það væri líka gaman að fara til Ólafsvíkur úr því að ég missti af því um daginn. Hitt Víkingsliðið í Fossvoginum væri líka fínt eða Leiknir í Breiðholtinu. – Sem þýðir að við fáum örugglega FH úti.