21. maí 2011. Luton 0 : AFC Wimbledon 0 (3:4 eftir vítakeppni)
Ég hef alltaf haft samúð með píunum sem töpuðu fyrir Öskubusku. Ekki vondu stjúpsystrunum, þær voru ömurlegar og fengu makleg málagjöld, heldur öllum hinum: stelpunum sem mættu á dansiball og héldu að þær ættu jafnan séns í prinsinn í heiðarlegri keppni. Ekki höfðu þær aðgang að neinni helvítis álfkonu sem gat töfrað fram skó, kjóla, skart og eðalvagna. Og svo þurfti restin af heiminum að halda með þessari forréttindadömu af því að hún var móðurlaus!
Það sökkar að keppa við Öskubuskur. Og það er ömurlegt að tapa fyrir þeim.
Veturinn 2010-11 gerði ég mér nokkuð góðar vonir um að Luton myndi komast aftur inn í deildarkeppnina og ljúka þeirri eyðimerkurgöngu í utandeildinni sem verið hefur örlög okkar síðustu árin. Luton er Manchester United utandeildarinnar – í þeim skilningi að það er langstærsti klúbburinn. Á langflesta stuðningsmenn og fær langflesta áhorfendur á leiki. Það er þó ekki alltaf nóg.
Úr „konferensunni“ fara bara tvö lið á ári. Toppliðið kemst beint, en liðin í öðru til fimmta sæti leika í umspili. Umspil er hreint lotterí og yfirleitt er eitt lið sem hittir á frábært ár, oftar en ekki klúbbur sem einhver milljarðamæringurinn er nýbúinn að kaupa og leika sér að því að henda peningum í.
2010-11 var Crawley þetta lið. Crawley hafði barist í bökkum lengi, en fengu ríkan eiganda sem keypti nýjan leikmannahóp á einu bretti fáeinum vikum fyrir mót. Það hreif. Crawley fékk 105 stig og vann með yfirburðum.
Wimbledon, Luton, Wrexham og Fleetwood komu í sætunum á eftir og þrátt fyrir töfluröðina voru Luton og Wrexham talin líklegust. Eftir 0:3 sigur í Wales, þar sem Luton-liðið lék við hvern sinn fingur, var það bara formsatriði að komast í úrslitaleikinn gegn Wimbledon á heimavelli Manchester City (furðulegt staðarval á viðureign tveggja liða frá suðrinu).
Luton : Wimbledon var óskaleikur sagnfræðinördanna á íþróttadeildum fjölmiðlanna. Það var hægt að rifja upp gamlar kempur frá níunda áratugnum, Wembley-sigra beggja liða. Og svo var Öskubuskuelementið. Þarna voru tvær Öskubuskur, sú minni var Luton sem knattspyrnuyfirvöld höfðu leikið grátt. Öskubuska hin stærri var hins vegar AFC Wimbledon – félagið sem kaupahéðnar höfðu stolið og flutt til Milton Keynes (svar Bretlands við Hamraborginni í Kópavogi). Stuðningsmennirnir söfnuðu liði og stofnuðu nýtt félag sem hóf leik neðst í knattspyrnupíramídanum og var nú á fleygiferð inn í deildarkeppnina á ný.
Undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði ég farið á barinn. Stefnt með mér hópi manna, drukkið nokkra bjóra og öskrað á skjáinn. En þennan dag var okkur Steinunni boðið í brúðkaupsveislu hjá vinafólki. Um það leyti sem venjulegum leiktíma lyki væri passlegt að fara að leggja af stað. Ég sat því í jakkafötunum með pilsner í dós og rýndi í ferlega lélega vefútsendingu á tölvuskjánum, sem sífellt var að frjósa eða detta út. Með þessu hlustaði ég á höktandi útvarpslýsingu í gegnum sömu tölvu. Mynd og hljóð voru þó aldrei í takti.
Og við vorum betri. Við vorum klárlega betri, en Wimbledon varðist vel. Þeir áttu svo sem líka sénsa, en einhvern veginn varð maður aldrei hissa þegar leiknum lauk með markalausu jafntefli. Steinunn var sein að búa sig og kallaði öðru hverju afsökunarorð innan úr svefnherbergi. Ég þóttist gríðarlega skilningsríkur og bað hana endilega um að taka sér bara sinn tíma, mér leiddist ekkert voða mikið…
Framlengingin var í sama dúr. Mjög snemma virtust báðir stjórarnir farnir að hugsa um vítaskyttur. Í eitt augnablik á lokasekúndunum virtust þær áhyggjur óþarfar þegar Jason Walker komst í dauðadauðadauðafæri en mistókst að skora. Þetta blogg styður ekki útlitsfordóma, en þó er rétt að taka það fram að Jason Walker er rauðhærðari en Harry Bretaprins.
Það var vítakeppni. Lawless klikkaði strax í fyrstu spyrnu og svo skiptust liðin á að skora, þar til einn Wimbledonmaðurinn brást líka. Allt jafnt aftur! Steinunn kallaði af baðinu hvort við værum nokkuð orðin dónalega sein, en ég fullvissaði hana um að svölu krakkarnir kæmu alltaf 40 mínútum of seint í svona veislur.
Anna í Grænuhlíð fékk tækifæri til að bæta fyrir klúðrið frá lokamínútunum… en nei! Auðvitað hlaut fransmannabeitan að fokka þessu upp…
Wimbledon skoraði úr tveimur síðustu spyrnunum og Öskubuska hin meiri fékk prinsinn. Ég var eins og kýldur í magann. Í hálfgerðu losti togaðist ég í veisluna og reyndi að spjalla við fólk sem ég þekkti ekki neitt. Helvítis vítakeppnir.
(Engir markaskorarar í venjulegum leiktíma eða framlengingu.)