Fundurinn: Fótboltasaga mín 54/100

26. janúar 2013. Norwich 0 : Luton 1

Ég kláraði að mestu kvótann minn í flokkspólitísku starfi í Alþýðubandalaginu. Gekk í flokkinn sextán ára, seint á árinu 1991. Lenti fljótlega í ýmsum stjórnum bæði í ungliðahreyfingunni og síðar í Framsýn, einu fjölmargra aðildarfélaga flokksins í Reykjavík. Ég var eins og grár köttur á flokkskontórnum næstu árin og alltaf mættur þar sem hægt var að plotta. Það stóð mér þó dálítið fyrir þrifum að ég átti vini í báðum örmunum í flokknum, sem þýddi að hvorugur þeirra treysti mér fullkomlega.

Haustið 1999 sagði ég skilið við Alþýðubandalagið og Samfylkinguna. Það tók mig margar vikur að komast að þeirri niðurstöðu og ákvörðunin var eins og sorgarferli. Mér hefur aldrei liðið eins illa og þá mánuði sem þessi skilnaður tók og á köflum óttaðist ég að vera orðinn þunglyndur. Í kjölfarið fór ég í VG, en hef aldrei tekið þátt í því starfi á sama hátt og í Abl.

Steinunn sér um flokkapólitíkina í okkar hjónabandi. Ég er á hliðarlínunni og hef í mesta lagi tekið að mér afmörkuð verkefni, einkum að sitja í uppstillingarnefndum og kjörstjórnum. Slík verkefni henta mér vel, einkum vegna þess að þau eru í eðli sínu mjög vanþakklát og ég þoli vel að taka það að mér að vera óvinsæli gaurinn í smátíma.

Og svo er ég stundum kallaður til þegar kemur að utanríkismálum, svo sem að halda utan um starfshópa á landsfundum eða miðstjórnarfundum. Það var einmitt á einhvern slíkan fund sem ég þurfti að mæta daginn sem Luton hélt á Carrow Road til að keppa við Norwich í 4ðu umferð enska bikarsins 2013.

Luton var fimm ár í utandeildinni. Fjögur þau fyrstu voru gleðisnauð og einkenndust af vonbrigðum, þjálfaraskiptum og andstæðingum sem lögðu sig alla fram og tvíefldust allt í einu þegar þeir mættu „stóra liðinu“ í deildinni. Eitt af fáum ljósum í myrkrinu var bikarævintýrið 2012-13.

Í forkeppninni vann Luton Cambridge á útivelli. Nuneaton voru mótherjarnir í fyrstu umferð aðalkeppninnar og unnust í aukaleik. Þar á eftir vannst naumur sigur á Dorchester á Kenilworth Road. Í þriðju umferð komu Úlfarnir úr næstefstu deild í heimsókn. Allt var í steik í herbúðum þeirra og þjálfarinn beið þess að vera rekinn. Gott ef 1:0 tapið með marki Alex Lawless dugði ekki til þess.

Luton var þar með komið í 4ðu umferð, 32-liða úrslit. Mótherjarnir voru Norwich á útivelli, sem fyrr segir. Þegar kemur að því að ákveða sjónvarpsleiki í bikarkeppninni, hafa innbyrðisleikir úrvalsdeildarliða alltaf forgang. Því næst reyna sjónvarpsstöðvarnar að velja viðureignir þar sem neðrideildarlið eiga séns á að velgja stórliðum undir uggum. Draumurinn er alltaf að sjá Davíð sigra Golíat.

Útileikur utandeildarliðs gegn úrvalsdeildarliði var hins vegar alltaf langsóttur möguleiki og því varð ég steinhissa að frétta að hann yrði sýndur beint, þar á meðal á bandarísku stöðinni Fox Soccer. Valið var merkilegt í ljósi þess að utandeildarlið hafði ekki unnið eftstudeildarlið í bikarnum frá því að Sutton United skellti Coventry árið 1989 – og Sutton var þó á heimavelli. Það þurfti að fara enn lengra aftur í tímann til að finna útisigur liðs sem var svona mikið neðar í deildarpýramídanum.

Og þarna var ég búinn að bóka mig á Vinstri grænan-málefnafund á hótelinu sem einu sinni hét Holiday Inn. Þar var þó netsamband og ég mætti með tölvuna, lét leikinn lulla á vafranum, en þó falinn til hálfs á bak við Word-skjöl þar sem ég pikkaði niður einhverja punkta um Evrópusambandið, Nató og heræfingar. Líklega plataði ég engan nema sjálfan mig með að ég væri með fulla athygli á fundinum.

Það var markalaust í hálfleik og fundinum lauk í leikhléi. Ég ákvað því að trítla fram í setustofu hótelsins og fylgjast áfram með leiknum á lappanum, auk þess að gjóa augunum á sjónvarpsskjánna á barnum sem sýndu Arsenal lenda í miklu klandri gegn Brighton og einhverja aðra síður minnisstæða leiki til viðbótar.

Fyrir leikinn bjóst ég við 2-3 marka tapi, en gældi við tilhugsunina um að hægt væri að þvinga fram aðra viðureign á heimavelli með tilheyrandi gróða og mögulegri sjónvarpsútsendingu. Eins og leikurinn þróaðist virtist sú þróun mála sífellt líklegri. Luton lá í vörn og Norwich sótti, en þeir voru í raun ekki að skapa sér neitt – náðu sárafáum skotum á markið og Tyler átti ekki í sérstökum vandræðum með þessa fáu bolta sem sluppu í gegn.

Starfsfólk hótelsins rölti framhjá og spurði út í leikinn. Ég útskýrði málið og flestir sýndu áhuga: mundu eftir Luton frá því í gamla daga og þekktu einhverja sem héldu með sérviskulegum liðum. Allan seinni hálfleikinn var ég því að fá spurningar um hvernig gengi og hvort staðan hefði nokkuð breyst.

Tíu mínútum fyrir leikslok voru Norwich-menn farnir að verða ansi pirraðir á hversu illa gengi að brjótast í gegnum vörnina og þreytan farin að segja til sín. Luton var hins vegar með ferskar fætur í sókninni. Scott Rendell, leikmaður sem flakkað hefur á milli neðrideildarliða allan sinn feril án þess að stoppa nema fáeina mánuði á hverjum stað, var settur inná og örskömmu síðar var hann á réttum stað eftir að táningurinn J. D. O´Donnell prjónaði sig upp að endamörkum í skyndisókn. Staðan 0:1 fyrir Luton og ég lét öllum illum látum.

Við tók tíu mínútna nauðvörn þar sem sífellt örvæntingarfyllri sóknarmenn Norwich gerðu sitt besta til að jafna metin. Allt kom fyrir ekki. Luton vann og staffið á hótelinu gaf mér bjór að sigurlaunum!

Það sem eftir var dags rigndi yfir mann hamingjuóskum. Engir glöddust þó meira en Coventry-stuðningsmennirnir í vinahópnum sem sáu fram á að endalausum upprifjunum á Sutton-leiknum frá 1989 myndi loksins ljúka! Luton varð fyrsta utandeildarliðið í 16-liða úrslitum í óratíma, en tapaði fyrir Millwall á heimavelli.

Sigurinn á Carrow Road reyndist þó Pyrrhosarsigur. Öll einbeiting liðsins fór út um gluggann. Luton fokkaði upp deildinni og mistókst að komast í umspilið, sem þó hafði verið talið útilokað fyrirfram. Stjórinn, Paul Buckle, hrökklaðist frá undir lok leiktíðarinnar og bar því við að hann væri að elta konuna sína til Bandaríkjanna. Við réðum í staðinn gamlan jálk, John Still, sem ég hafði ekkert álit á. Næsta tímabil pakkaði hann deildinni saman og gerði okkur að meisturum með 19 stiga forskot á næsta lið. Svona er maður nú slappur mannþekkjari.

(Mark Luton: Scott Rendell)