Þokan: Fótboltasaga mín 57/100

 8. júlí 2013. Grótta 1 : Fram 2

Er gott að dragast gegn neðrideildarliði í bikarkeppninni? Um þessa spurningu mætti skrifa langar ritgerðir á sviði leikjafræði. Tölfræðin segir okkur að íslensk efstudeildarlið vinna nánast alltaf andstæðinga úr þriðju efstu deild eða neðar og komast þannig áfram í keppninni. Neðrideildarandstæðingur færir lið því langoftast nær lokamarkmiðinu um að komast í úrslit og verða bikarmeistari.

Á móti kemur hins vegar að vilji svo ólíklega til að leikurinn tapist, fylgir því óbærileg niðurlæging og upprifjun á úrslitunum svo árum skiptir. Efstudeildarliðið mætir til leiks og hefur öllu að tapa. Það er hálfkjánalegt að fagna stórsigri og að skora mörg mörk gegn fjórðudeildarliði gerir ekkert fyrir sjálfstraust framherjanna og oft á tíðum útheimtir það mikla orku að brjóta niður andstæðing sem pakkar í vörn.

Það var því blendin ánægja þegar Framarar drógust gegn Gróttu í fjórðungsúrslitum bikarsins 2013. Í pottinum voru sex úrvalsdeildarlið og Víkingar úr næstefstu deild auk Gróttu sem hafnaði í þriðja sæti þriðju efstu deildar þetta sumarið.

Grótta er skrítið félag. Það búa fleiri á Seltjarnarnesi en í Vestmannaeyjum og örlítið færri en á Skaganum. Samt telst Grótta varla fullgilt fótboltalið í hugum flestra fótboltaáhugamanna. Öfugt við t.d. Aftureldingu, Leikni og Hauka, þá er ansi mörgum tamt að líta á Gróttu sem hálfgert KR-varalið. Mig grunar að ansi margir Seltirningar hafi annað augað á Gróttu í neðrideildunum og líti á leik og leik, en mæti svo málaðir í KR-litunum á leiki í Frostaskjólinu.

En þó fáir mæti á heimaleikina gegn Njarðvík eða Ægi í deildinni, fjömenna Seltirningar þegar stórlið koma í heimsókn í bikarkeppninni. Það var vel mætt á vellinum fyrir neðan Valhúsaskólann, sem er mögulega flottasta vallarstæði höfuðborgarsvæðisins en illu heilli með gervigrasi.

Reyndar var ég ekki viss um að leikurinn gæti farið fram á tilætluðum tíma, því þennan dag var fáránlega þétt þoka yfir borginni svo varla sást milli húsa. Þá kom sér þó loksins vel að Seltjarnarnesið er rokrasskat. Völlurinn var vel sjáanlegur þegar flautað var til leiks og skömmu eftir leikhlé lyfti þokan sér og við blasti glæsilegt útsýni til Bessastaða.

Gróttumenn pökkuðu í vörn og tókst nokkuð vel að halda Frömurum í skefjum. Rétt um miðjan hálfleikinn tókst Almarri Ormarrssyni þó að skora og við stuðningsmennirnir á pöllunum urðum rólegir. Nú hlytu 1-2 mörk að fylgja í kjölfarið og Gróttumenn að brotna.

En sú varð ekki raunin. Grótta hélt áfram að verjast vel og í stað þess að Framararnir yrðu afslappaðri án pressunnar og meira ógnandi urðu menn bara pirraðri eftir því sem verr gekk að finna veika bletti.

Ég stóð umkringdur mennta- og menningarkrötum, mönnum á borð við Hallgrím Helgason, Einar Kárason og Pál Valsson. Kristrún Heimisdóttir kom aðvífandi og tók okkur tali. Kristrún auðvitað uppalinn Seltirningur og fannst ekki leiðinlegt að láta okkur engjast með kurteisislegum pillum sem dulbúnar voru sem sakleysislegar spurningar: „Voðalega gengur ykkur eitthvað illa að ná upp hröðu spili? Í minningunni voru Framarar nú alltaf svo léttleikandi lið, með Pétur Ormslev og svona… – Áttuð þið ekki frekar von á að vinna þennan leik á sannfærandi hátt?“

Ég hefði væntanlega hagað mér nákvæmlega eins í hennar sporum, en við Framararnir lætum nægja að umla eitthvað afsakandi um gervigras, leikjaálag og nýjan þjálfara. En það versta var að einhvern veginn fór manni að gruna í hvað stefndi.

Í seinni hálfleik héldu Gróttumenn áfram að verjast gegn síþverrandi sóknarþunga Framara, sem sköpuðu sér sárafá alvöru marktækifæri. Skyndisóknirnar hinu megin á vellinum urðu jafnframt smátt og smátt beittari. Það varð því enginn hissa þegar nafni bæjarstjórans fyrrverandi (á maður að slá því föstu að þeir hljóti að vera frændur?) skoraði jöfnunarmark tíu mínútum fyrir leikslok. Framlengja þurfti og við Framarar stóðum draugfúlir meðan heimamenn voru farnir að hrópa og klappa.

Skynsemin sagði manni að engin ástæða væri til að fara á taugum. Úrvalsdeildarleikmenn eru í betra formi en leikmenn í neðrideildarliði, sem ætti að koma fram eftir að venjulegum leiktíma væri lokið. Það var líka talsvert farið að draga af Gróttumönnum sem höfðu þá áætlun eina að hanga á jafnteflinu og komast í vítakeppni, þar sem allt gæti gerst.

Og það mátti svo litlu muna að sú leikaðferð skilaði árangri. Allt Gróttuliðið varðist inn í vítateig, en Framarar spiluðu fyrir utan og reyndu að koma sendingum inn í boxið sem jafnharðan voru hreinsaðar fram völlinn eða útaf. Þegar fjórar mínútur voru eftir af framlengingunni notaði Ríkharður þjálfari síðustu skiptinguna sína. Átján eða nítján ára pjakkur sem komið hafði frá Breiðabliki en er reyndar af Framaraættum, Aron Þórður Albertsson, kom inná.

Ég man ekki hvort þetta voru fyrstu mínútur Arons í deild og bikar. Ef til vill hafði hann komið einu sinni af bekknum fyrr um sumarið, en mér fannst skiptingin fyrst og fremst merki um örvæntingu. Ef Rikki hefði í raun og veru trú á að þessi táningur myndi skipta sköpum í leiknum hefði hann væntanlega gert breytinguna fyrr.

En eins og búast mátti við af ungum varamanni í þessari stöðu, ætlaði Aron augljóslega að láta til sín taka og helst að prjóna sig sjálfur í gegnum allan teiginn og í markið. Á 119. mínútu fékk hann færið, náði að skjóta sér fram fyrir einn örþreyttan varnarmann Gróttu og vissi upp á hár hvað myndi gerast næst. Hann beið rólegur eftir að Seltirningurinn ræki löppina aftan í hann og féll fimlega til jarðar.

Kristinn Jakobsson tók hlaupið inn í teiginn og var kominn með gula spjaldið í lófann, albúinn að spjalda Aron fyrir leikaraskap, þegar hann leit upp og sá að aðstoðardómarinn var búinn að flagga víti. Frekar en að stinga spjaldinu í vasann og tapa kúlinu, benti Kristinn á vítapunktinn og hljóp að vesalings Gróttumanninum og sýndi honum spjaldið. Það var harður dómur.

Steven Lennon fór á punktinn og skoraði. Nokkrum sekúndum síðar var flautað til leiksloka. Gróttustuðningsmennirnir gengu hnípnir af velli, sendu okkur sakbitið augnaráð en reyndu þó að bera sig vel og tala um góða frammistöðu sinna stráka. Framleikmennirnir voru fyrst og fremst fegnir og vandræðalegir yfir að hafa naumlega unnið Gróttu út á soft-víti. Gott ef liðið sleppti ekki meira að segja hinu sígilda Sigga-sagga sigurópi.

Eftir slæman leikdóm sagðist Liberace einhverju sinni hafa grátið alla leið í bankann. Við skömmuðumst okkar alla leið í undanúrslitadráttinn daginn eftir.

(Mark Gróttu: Jónmundur Grétarsson. Mörk Fram: Almarr Ormarrsson, Steven Lennon)