8. júlí 1996. Fram 8 : Þór 0
Áður en Stjörnumenn byrjuðu á fábjánafagnaðarlátunum sínum fyrir nokkrum árum síðan, rækilega hvattir áfram af apaköttum á internetinu, voru Eyjamenn með sín „fögn“. Þau kættu skiljanlega þeirra eigin stuðningsmenn og stöku hrifnæma íþróttafréttamenn. Stuðningsmenn annarra liða urðu bara pirraðir. Leikmenn annarra fótboltaliða sem fagna óhóflega eru jafnleiðingjarnt fyrirbæri og myndir af smábörnum sem maður þekkir ekki neitt á samfélagsmiðlum.
Á undan „fögnum“ ÍBV sýndu knattspyrnumenn gleði sína með því að hlaupa saman í hóp, faðma markaskorarann að sér og steyta hnefa sigri hrósandi. Allt mjög siðmenntað og enginn tapaði virðingunni.
Já og svo var það Michael Payne.
Michael Payne skoraði reyndar bara eitt mark, en fagnaði því líka afar innilega. Raunar svo innilega að það tryggði honum pláss sem pínkulítil innskotssetning í neðanmálsgrein í sögu Knattspyrnufélagsins Fram.
Við lékum í næstefstu deild sumarið 1996, í fyrsta sinn frá 1983. Það voru þung skref niður um deild og enn sárara að mikilvægustu leikmennirnir ákváðu að þeir væru of góðir til að leika á því stigi. Þótt Fram hefði kolfallið fóru markvörðurinn og nær öll vörnin í atvinnumennsku. Rikki Daða gekk svo til liðs við KR.
Á þessum árum var Ríkharður í háskólanámi í Bandaríkjunum. Félagi hans úr skólaliðinu lýsti áhuga á að spreyta sig eitt sumar á Íslandi og fékk númerið hjá Fram. Það var Michael Payne, sterkbyggður og þeldökkur strákur.
Hann kom til landsins fyrir fjórðu umferð. Framarar höfðu þá gert tvö jafntefli og unnið einn leik og stemningin frekar súr. Hinn ungi Payne kom inn á sem varamaður í þremur sigurleikjum í röð, í öllum tilvikum eftir að úrslitin máttu heita ráðin. Ásgeir heitinn Elíasson var ekki mikið fyrir að nota skiptingar nema þá seint um síðir í leikjum.
Stóra tækifærið kom svo í sjöundu umferðinni. Framarar tóku á móti Þór og Michael Payne var kominn í byrjunarliðið. Leiksins var beðið með eftirvæntingu. Skallagrímsmenn voru öllum að óvörum í toppsætinu, en enginn trúði að það myndi vara lengi. Þórsarar voru hins vegar almennt taldir það lið í deildinni sem líklegast væri til að geta ógnað Frömurum. Það var því auglýstur toppslagur á Valbjarnarvelli.
Þórsarar í bænum voru kokhraustir, enda með markahrókinn Hrein Hringsson í framlínunni. Liðið ætlaði sér upp og Akureyringar fjölmenntu. Það endaði allt í tárum.
Ég hef sjaldan eða aldrei séð lið hrynja jafn gjörsamlega og Þórsara í þessum leik. Þetta var Brasilía:Þýskaland fátæka mannsins.
Fram komst yfir eftir tæpar tíu mínútur. Ágúst Ólafsson skoraði. Þetta var sumarið hans. Ágúst var í vörninni hjá Fram en fékk ansi frítt spil í sóknarleiknum og var stundum sendur fram þegar í nauðirnar rak. Fyrir vikið endaði hann í fjórtán mörkum og næstmarkahæstur í deildinni á eftir Þorbirni Atla, þrátt fyrir að eiga að heita bakvörður. Ó, hvað það hlupu margir apríl árið eftir og völdu Ágúst í draumalið sitt í DV-leiknum í þeirri von að fá varnarmann sem raðaði inn mörkum.
Hinn bakvörðurinn, Ásgeir Halldórsson, skoraði mark númer tvö. Hann var alltaf einn af uppáhaldsleikmönnunum mínum á sama hátt og ég dáði Þorstein Þorsteinsson sem pjakkur. Mínir menn eru traustir bakverðir sem láta lítið fyrir sér fara en skila sínu.
Þriðja markið kom eftir fimmtán mínútur og það átti enginn annar en Michael Payne. Þorbjörn Atli lagði upp markið fyrir hann, sem var pen afgreiðsla í markhornið. Félagi Payne tók fagnaði tryllingslega og tók heljarstökk. Fram að þessu hafði ég aðeins séð einn mann fagna marki á þennan hátt, Hugo Sánchez, Mexíkóann hjá Real Madrid.
Við áhorfendurnir urðum strax frekar vandræðalegir. Jújú, það var óneitanlega stuð að vera kominn í 3:0 eftir kortér, en svona gassagangur var óviðeigandi og minnti helst á það þegar Guðmundur Páll Gíslason skoraði sigurmarkið í Reykjavíkurmótinu löngu fyrr (löng saga, rek kannski seinna).
Um leið og Fram skoraði þriðja markið vissu allir á vellinum að mótið væri búið. Fram myndi vinna aðra deildina og spila í deild þeirra bestu að ári. Frá og með þessu augnabliki yrði þetta bara spurning um tölfræði. Þórsararnir urðu daprir en hugguðu sig við að geta líklega slegið Skallagrími við (sem þeim tókst reyndar ekki). Við Framararnir teygðum úr okkur og stækkuðum um eina tommu.
Michael Payne varð líka kátur – og eins og gerist stundum hjá mönnum sem fá nasaþefinn af velgengni gekk hann á lagið. Allir á vellinum áttuðu sig á því að úrslitin væru ráðin og spurningin væri bara hversu stór sigurinn yrði. Nema hr. Payne sem var eins og naut í flagi og ætlaði greinilega að spila sig inn í liðið.
Fljótlega eftir markið straujaði hann Þórsara úti á miðjum velli og fékk gult spjald. Skömmu seinna skoraði Þorbjörn Atli úr víti og breytti stöðunni í 4:0.
Payne hélt áfram að tækla og hlaupa. Hann ætlaði að skora þrennu í það minnsta. Tíu mínútum eftir mark Bjössa, skallaði Ágúst Ólafsson aftur í markið, 5:0. (Ég held að svona 10 mörk hans þetta sumarið hafi verið skallamörk.) Við markið færðist sá bandaríski enn í aukana og straujaði skömmu síðar einn Þórsarann. Rautt spjald og Fram manninum færri í 50 mínútur.
Tíu Framarar héldu áfram að yfirspila ellefu Þórsara í seinni hálfleik. Bjössi skoraði aftur eftir sendingu frá Þorvaldi Ásgeirssyni. Anton Björn setti sjöunda markið, Steinar Guðgeirs átti stangarskot, en Ágúst Ólafsson náði áttunda markinu á sjötugustu mínútu. Engin verðlaun fyrir að giska á með hvaða íkamshluta það var skorað.
Með tuttugu mínútur til leiksloka og 8:0 forystu fóru sagnfróðir Framstuðningsmenn að gæla við a.m.k. metjöfnun frá 12:2 sigrinum á Þrótti 1954. En eftir þetta tókst Akureyringum að skella í lás, enda liðsmunurinn farinn að bíta.
Michael Payne skoraði aldrei aftur fyrir Fram. Hann kom við sögu í þremur leikjum til viðbótar, en þá sem varamaður. Ásgeir Elíasson fyrirgaf mönnum ekki svo glatt þann fábjánaskap að láta reka sig útaf 5:0 yfir. Skítt með hversu töff fögnin væru.
(Mörk Fram: Ágúst Ólafsson 3, Þorbjörn Atli Sveinsson 2, Michael Payne, Anton Björn Markússon)