Á hasarmyndaþætti á Skjá einum brann fjölskylda til kaldra kola – batteríið var víst búið í reykskynjaranum. Steinunn sendi mig þegar til að athuga reykskynjara heimilisins, sem svínvirkar. Segið svo að það geti ekki verið gagn af lögguþáttum…
Hef sjálfur setið við tölvuna í allt kvöld að vinna í tíma miðvikudagsins í kúrsinum okkar Sverris. Sjálfur missi ég reyndar af næsta tíma – verð á Egilsstöðum að dæma GB-keppni.
Hvernig fór grunnskólakeppnin í kvöld? Að öllu jöfnu væri mér nákvæmlega sama um úrslitin, en í ár er Björn litli VG-drengur er í Hagaskólaliðinu, sem þess utan er þjálfað af frænda mínum og höfuðsnillingnum Ara Eldjárn, þannig að ég held að þessu sinni með mínum gamla skóla.
Luton leikur heima gegn Walsall annað kvöld. Maður er orðinn fjári kröfuharður í seinni tíð – Paul Merson er spilandi þjálfari með Walsall. Undir eðlilegum kringumstæðum fengi hann allnokkrar pillur frá Luton-mönnum, en hann er búinn að fara svo fögrum orðum um okkur upp á síðkastið að líklega verður öllum kókaín-bröndurum stillt í hóf.
Jamm.