Framsóknarmenn í Kópavogi hafa ekki stofnað nýtt flokksfélag frá því um miðja síðustu viku. Skyldu þeir ekki fá fráhvarfseinkenni?
Annars rifjaði allt þetta Framsóknarbrölt upp fyrir mér miðstjórnarfund í Alþýðubandalaginu í gamla daga. Þetta var á þeim árum þar sem allt logaði í Alþýðubandalaginu í Reykjavík og menn treystu ekki hver öðrum yfir þröskuld. Fimm Alþýðubandalagsfélög voru starfandi í höfuðborginni: ABR, sem flestir voru í og talið var „Svavarslið“; Birting sem var Ólafs Ragnars-liðið – í þessum tveimur félögum voru ansi margir tættir á sálinni eftir áralangt stríð. Þriðja félagið var Framsýn, sem var líka talið Ólafs Ragnars-megin en var ekki jafn frústrerað og biturt og Birting. Fjórða félagið var Sósíalistafélagið sem Þorvaldur Þorvaldsson og Þórir Karl slógust um. Loks var Æskulýðsfylkingin í Reykjavík sem síðar var breytt í Drífandi – eftir að hin óopinbera ungliðahreyfing – Verðandi – gekk í flokkinn. Ný aðildarfélög þurfti að stofna og fá staðfestingu frá miðstjórn til að þau teldust gild.
Flókið? Hafið ekki áhyggjur – þetta skýrist bráðum.
Á landsfundum og miðstjórnarfundum hneyksluðust Allaballarnir utan af landi á helv. Reykvíkingunum sem aldrei gætu verið til friðs, gætu ekki starfað saman í einu félagi og rústuðu svo öllum fundum með innbyrðis naggi og leiðindum.
Miðstjórnarfundur þessi, sem var í litlum sal á Hótel Sögu hófst við frekar þrúgandi aðstæður, þar sem allir biðu eftir að farið yrði að rífast. Svo leið og beið – ekkert gerðist, engar deilur, ekkert… Lengi vel ætluðu miðstjórnarfulltrúar ekki að trúa sínum eigin augum, en svo urðu allir kátir. Stemningin varð léttari og hver maðurinn á eftir öðrum fór í pontu til að segja brandara eins og: „Maður veit ekkert hvernig á að haga sér hérna. Ekkert rifist eða neitt! hehehe…“
Rétt fyrir lok fundarins, undir liðnum önnur mál, biður Helgi Hjörvar um orðið. Fundargestir voru að týnast út. Einhverjir komnir í frakkana og búnir að safna saman gögnunum…
Helgi ávarpar fundarstjóra og tilkynnir um stofnun nýs aðlidarfélags Alþýðubandalagsins í Reykjavík sem hann vilji bera undir fundinn. Salurinn frýs! Andköf heyrast og einhverjir fórna höndum. Þá dregur Helgi fram lög félagsins og les hátt og snjallt fyrstu málsgrein: Félagið heitir Miðtafl og er einkum opið skákelskum Alýðubandalagsfélögum.
Öllum finnst þetta rosalega sniðugt. Gríðarlegt lófatak í salnum – Helgi, alltaf fyndinn! Tillagan er lögð undir fundinn og allir samþykkja einum rómi.
Eftir rölti ég til Helga – hrósaði honum fyrir grínið. Hann glotti við.
Helgi vissi náttúrlega sem var, að þótt félög séu stofnuð undir yfirskyni skákiðkunar þá geta þau hvenær sem er breytt tilgangi sínum. Eftir stóð að miðstjórnarfundur Alþýbandalagsins hafði nú samþykkt inn – mótatkvæðalaust – sjötta Alþýðubandalagsfélagið í Reykjavík. Félag sem hefði aðsetur í skúffunni hjá Helga Hjörvar og ætti fullan rétt á kjördæmisráðs- og landsfundarfulltrúum um leið og Helgi skilaði inn félagaskrá.
Og þetta félag hét meira að segja „Miðtafl“…
Sem útsmoginn pólitíkus er HH einn allra klókasti stjórnmálamaður á Íslandi. Það að vera ekki lengur með Helga í flokki er eitt af því sárafáa sem ég sakna úr Alþýðubandalaginu.