Áhugamennirnir: Fótboltasaga mín 36/100

29. maí 1988. Ísland 0 : Ítalía 3

Frá tíu ára aldri hef ég skipulagt líf mitt að miklu leyti í kringum fótbolta. Síðasta aldarfjórðunginn eru teljandi á fingrum þau skipti sem ég hef misst af Framleik í deild eða bikar á höfuðborgarsvæðinu þegar ég hef ekki beinlínis verið upptekinn vegna vinnu, veikinda eða annars slíks. Auðvitað missi ég af fullt af leikjum vegna árekstra við aðra hluti, en tilhugsunin um að sitja heima og góna á sjónvarpið meðan Framarar eru að spila í Kópavogi eða Breiðholti er fáránleg.

Íslenska landsliðið hefur aldrei hreyft við mér á sama hátt. Það þarf talsvert að ganga á til að ég nenni að gera miklar ráðstafanir til að horfa á landsleiki. Þannig hika ég ekki við að setja niður fundi þótt Ísland sé að spila. Ég veit ekki hvort þetta gerir mig að lélegum Íslendingi, en almennt hef ég á tilfinningunni að hörðustu stuðningsmenn félagsliða séu sjaldnast mjög uppveðraðir yfir landsliðum sínum og öfugt.

Það verða ekki margir landsleikir Íslands í þessum hundrað leikja annál af þeirri einföldu ástæðu að ég hef ekki séð mjög marga eða þeir ekki orðið sérstaklega minnisstæðir. Það er helst að ég hafi mig í að mæta ef einhverjir landsliðsmannanna hafa tengsl við Fram.

Vorið 1988 mætti ég þó á Laugardalsvöllinn til að hvetja Ísland – nánar tiltekið íslenska Ólympíulandsliðið sem mætti Ítölum í lokaleik forkeppninnar. Tvennt kom til: íslenska liðið var borið upp af Frömurum og altalað var að ítalska liðið væri rosalegt.

Af Frömurum ber fyrstan að nefna Friðrik Friðriksson í markinu. Hann var reyndar farinn til Danmerkur til náms og knattspyrnuiðkunnar. Friðrik var hetjan mín og ég botnaði ekkert í þeirri vitleysu að hafa Bjarna Sigurðsson sem aðalmarkvörð landsliðsins. Pétur Arnþórsson var baráttujaxlinn á miðjunni. Gummi Steins og Gummi Torfa voru framherjar og Kristinn R. Jónsson kom inná sem varamaður.

Undir eðlilegum kringumstæðum hefðu þeir Viðar Þorkelsson og Þorsteinn Þorsteinsson verið í vörninni, en þeir voru í prófum í Háskólanum. Enginn grét það meira en ég. Þorsteinn var minn maður, enda lét ég setja nr. 2 á Fram-treyjuna mína. Óvenjulegt val vissulega, en ætli ástæðan hafi ekki verið sú að ég las viðtal við Þorstein í Framblaði þar sem hann sagðist síðast hafa skorað í 3. flokki. Mér fannst eitthvað göfugt við bakverði sem voru trúir yfir litlu og héldu sig á sínum stað á vellinum…

Og vá, hvað við hefðum þurft á Þorsteini og Viðari að halda í þessum leik! Ítalirnir yfirspiluðu okkur án þess að fara úr öðrum gír. Þeir unnu með þremur mörkum, en þau hefðu getað orðið sex eða sjö. Það var svo sem ekki stórstjörnunum fyrir að fara í íslenska landsliðshópnum: Ingvar Guðmundsson, Þorsteinn Guðjónsson, Valur Valsson… Þarna var líka KR-ingurinn Ágúst Már Jónsson, en hann hafði sérstaka stöðu sem fyrrum leikfimikennari minn í Melaskóla, þá kornungur.

Fyrir utan Friðrik, sem lék í áhugamannalandinu Danmörku, voru allir íslensku landsliðsmennirnir á mála hjá liðum hér heima. Ísland hljóp apríl og leit svo á að Ólympíuknattspyrnukeppnin væri fyrir áhugamenn og tefldi fram B-liði. Ítalska liðið var hins vegar skipað fjölda leikmanna úr efstu deild, þar á meðal fjórum úr AC Milan. Pirringsleg ummæli Sigfrieds Held landsliðsþjálfara um að Ítalir væru „sterkasta áhugamannalið í heimi“ voru því líklega allt eins mikið skot á stjórnendur KSÍ en andstæðingana.

En hverjar voru stjörnurnar í liði Ítala sem endaði á að fara til Seoul og komast á spjöld sögunnar með því að tapa 4:0 fyrir Zambíu (úrslit sem enginn í Evrópu man eftir, en eru talin gríðarlega merkileg í afrískri fótboltasögu)?

Jú, það var Stefano Tacconi í markinu. Myndin við Wikipediufærsluna um hann sýnir Tacconi drekkandi bjór og að kveikja sér í sígarettu, sem afhjúpar veikleika Wikipedia Commons-myndréttarkerfisins. Wikipedia fræðir mig hins vegar líka um að Tacconi hafi reynt fyrir sér sem stjórnmálamaður á hægrivængnum með takmörkuðum árangri.

Tacconi var aðalmarkvörður Juventus og liðsfélagar hans voru í báðum bakvarðarstöðunum á Laugardalsvelli, þeir Sergio Brio og Massimo Mauro. Sá síðarnefndi hefur líka reynt fyrir sér sem atvinnustjórnmálamaður. Mauro Tassotti var í annarri miðvarðarstöðunni, Aðalframlag hans til heimsknattspyrnunnar fólst í að mölbrjóta nefið á Luis Enrique á HM 1994 með glæsilegu olnbogaskoti án þess að dómarinn tæki eftir neinu. Það er á topp-10 listanum yfir splatteratvik í íþróttasögunni sem ég hefði betur ekki viljað sjá.

Maradona-aðdáandinn í mér fylgdist sérstaklega með Napoli-leikmönnunum á vellinum. Andrea Carnevale var annar framherjanna. Hann átti að verða ein aðalhetjan á HM á Ítalíu 1990, en í staðinn sló leiðindagaurinn Schillaci í gegn. Stefano Desideri frá Roma var líka nokkuð þekkt nafn á þessum árum. En í ljósi sögunnar hlýtur stærsta nafnið að vera miðjumaðurinn frá AC Milan og síðar knattspyrnustjórinn, Carlo Ancelotti.

Athyglisvert er að samkvæmt Wikipediu, sem væntanlega notast við opinbera skráningu ítalska knattspyrnusambandsins, teljast ÓL-leikirnir ekki fullgildir landsleikir ítölsku leikmannanna. Á vef KSÍ er hins vegar enginn greinarmunur gerður á þessum leikjum og hverjum öðrum A-landsleik. Spurning hvor talningaraðferðin sé rétt samkvæmt FIFA? Vonandi sú íslenska, Þorsteins Þorsteinssonar vegna!

(Mörk Ítalíu: Andrea Carnevale, Francesco Romano, Pietro Paolo Virdis)