Lýðveldið: fótboltasaga mín 60/100

17. júní 1994. Þýskaland 1 : Bólivía 0

„Samba á Laugardalsvelli!“ – Einhvern veginn svona hljóðaði auglýsing KSÍ um vináttuleik vorið 1994. Andstæðingarnir voru reyndar ekki Brasilíumenn… heldur Bólivía. Þetta er líklega í fyrsta sinn í sögunni sem Bólivía hefur verið sérstaklega tengd við samba. Í bólivíska landsliðinu var enginn þekktur leikmaður. Þorri liðsins lék með félagsliðum í heimalandinu eða Chile. Einn var á mála hjá evrópsku liði: Boavista í Portúgal.

En Bólivía var sem sagt að undirbúa sig fyrir úrslitakeppni HM, þá fyrstu frá 1950 og það kom í hlut þeirra að mæta heimsmeisturum Þjóðverja í opnunarleiknum. Kannski ekki draumaleikur hins hlutlausa áhorfanda, en opnunarleikur er þó alltaf opnunarleikur.

Þennan sama dag var þjóðvegahátíðin mikla haldin á Íslandi. Fimmtíu ára lýðveldisafmæli var fagnað en umferðarstjórnun klikkaði og gleymdist að skipuleggja sætaferðir, með þekktum afleiðingum. Mér datt ekki í hug að flengjast á staðinn enda fótbolti í sjónvarpinu.

Nokkrum dögum fyrr hafði þó blaðamaður hringt í mig og spurt hvort ég myndi mæta á ÞIngvöll? Hann var á einhverju vikublaðinu, Eintaki eða Helgarpóstinum og vildi fá álit MorfÍs-fólks á ræðunum sem fluttar yrðu af erlendu gestunum. Ég samþykkti með semingi að horfa á sjónvarpsútsendinguna og gefa einhver komment í kjölfarið.

Að kvöldi 16. júní fór ég á fyllerí og var skelþunnur allan daginn. Svaf af mér útsendinguna frá Þingvöllum og þurfti að láta nægja að lesa ræðurnar í Mogganum daginn eftir og giska á hvernig flutningurinn hefði til tekist. Það voru fáeinar mínútur í leik þegar ég drattaðist loks út úr húsi og hélt heim til Sigfúsar bekkjarfélaga míns þar sem við hittumst nokkrir til að fylgjast með leiknum. Ég missti meira að segja af opnunarhátíðinni og sá því ekki Diönu Ross klúðra því að sparka boltanum í markið á eftirminnilegan hátt.

Hann var frekar leiðinlegur og fyrirjáanlegur. Þjóðverjar sóttu. Bólivía pakkaði í vörn. Þegar komið var nokkuð fram í seinni hálfleik og maður farinn að gæla við að bólivíska liðið gæti haldið þetta út, þá skoraði Klinsmann. Markið lyktaði bæði af hendi og rangstöðu. Lokatölur 1:0.

Óbeit mín á Klinsmann var mikil á þessum árum. Hann var maðurinn sem öðrum fremur þróaði þá list framherja að velta sér í fjóra hringi eftir tæklingar til að reyna að fiska spjöld á andstæðinginn. Það var reyndar ekki Klinsmann heldur Matthäus sem kom við sögu í rauða spjaldinu sem einn Bólivíumaðurinn nældi sér í undir lokin. Matthäus slæmdi til þess bólivíska með olnboganum, sá sparkaði á móti í hefndarskyni. Dómarinn sá seinna brotið en ekki það fyrra. Rautt.

Mikið var það gaman þegar Búlgaría ruddi Þjóðverjum úr keppni síðar í þessu móti.

(Mark Þýskalands Jürgen Klinsmann)