Hvellurinn út af Geirs Waage-málinu vekur upp ýmsar spurningar fyrir okkur sem ekki þekkjum launhelgar kirkjunnar.
Þegar er búið að spyrja augljósu spurningarinnar: hvort sr. Geir myndi virkilega ekki tilkynna það ef hann fengi upplýsingar um pedófíl? Geir segir svo ekki vera.
Næsta spurning væri svo til sr. Bjarna Karlssonar og félaga, sem krefjast brottreksturs kollega síns: hvar þeir vilji þá setja mörkin varðandi trúnaðarskylduna? Erum við bara að tala um brot sem snúa að börnum? Myndi sr. Bjarni tilkynna um líkamsárás gagnvart fullorðnum einstaklingi? Myndi hann fletta ofanaf fíkniefnasala? – Þetta þarf sr. Bjarni að skilgreina býsna nákvæmlega. Annars er þagnarskylda hans nálega ónýt, eins og sr. Geir bendir á.
Þriðja og stærsta spurningin hlýtur þó að vera sú: hvort nokkur maður skrifti hjá lútersku þjóðkirkjunni? Einhvern veginn hljómar það frekar eins og óskhyggja kirkjunnar að skúrkar landsins keppist við að trúa sóknarprestum sínum fyrir ódæðum sem farið hafa fram hjá löggunni og félagsmálayfirvöldum? Eru menn ekki frekar að lýsa plotti úr e-m Law & Order-þættinum en hversdagslegum veruleika íslenskra sálnahirða?