Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2003

107021913458163908

Góður dagur í dag. Ekki það að ég lít enn út eins og Grýla og þarf eflaust að þola það eitthvað áfram.
Nei, ég afrekaði það að fara yfir ritgerðabunka og senda einkunnir. Búið að hanga svolítið yfir mér og þá er alltaf léttir að vera laus.

Ég fékk líka þau góðu tíðindi að systir kemur líklega heim um jólin, eftir allt saman, ég var nú búin að afskrifa það.

Tókum svo syrpu í jólamyndatöku af Sóleyju. Það hefði verið hægt að taka endalaust af myndum, hún er fædd í módelstarfið. Þannig að ég lofa góðri jólakortamynd í ár.

Stefnan er tekin á Finding Nemo í kvöld (án dóttur… 🙂 Um að gera að velja myndirnar vandlega þegar maður fer sjaldan. Ég er að minnsta kosti spennt. Höfðum meira að segja úr tveimur myndum að velja, mig langar nefnilega að sjá myndina með Haley Joel Osmond – sea more lions eða hvað hún nú heitir – ég kalla hana bara sea lions.

107013547212792311

Það fór lítið fyrir bloggi í gær. Einhvern veginn er það svo að ég nenni sjaldan að blogga þegar Sóley er vakandi enda finnst henni afskaplega sinnulaust af móður sinni að fara lengi í tölvuna í einu og lætur hana óhikað vita.

Í gærkvöldi var svo hið árlega baksturskvöld Sörusystra. Eins og nafnið gefur til kynna er verið að baka Sörur og félagsskapurinn samanstendur af nokkrum núverandi og tveimur fyrrverandi kennurum Síðuskóla. Þetta er alltaf mikil gleði. Í gærkvöldi fékk einn Sörubróðir að fylgjast með bakstrinum, til að læra af „meisturunum“ og dáðist hann mikið að þeirri þýsku nákvæmni sem einkenndi alla vinnu. Hver maður gekk að sínum stað og sínu starfi og svo var bakað af miklum móð. Sökum græðgi (í ár var ákveðið að baka tvöfalda uppskrift) tók þetta nokkuð langan tíma og ég var ekki komin heim fyrr en hálf þrjú, þá orðin býsna framlág. Hafði þurft að þola háðsglósur allt kvöldið vegna þess að ég skartaði nýju útliti. Eitthvað á milli fílamannsins og konunnar sem fór í of mikla sílikonvaraupplyftingu. Kvefið sem hafði plagað mig síðustu daga náði nefnilega hámarki þegar ég fékk svo mikið sem fimm frunsur. Það var rétt svo að ég hefði mig í að mæta, svo marið var sjálfstraustið.

Ekki lít ég betur út í dag. Ég fór að sækja afraksturinn klukkan tólf og núna eru þær orðnar frunsur dauðans (eða svona meira eins og formæður allra frunsa…) En í Pollýönnuleiknum gladdist ég yfir ýmsu. Í fyrsta lagi lít ég ekki svona út dagsdaglega. Allt í einu fannst mér sem hin hversdagslega Hafdís væri gullfalleg og mjög aðlaðandi. Reyni að muna það nokkra daga fram yfir frunsurnar. Í öðru lagi gladdist ég yfir öllu sem ég var ekki að gera. Ég var ekki að gifta mig, ég var ekki að kenna 30 manna bekk og fleira og fleira. Samt langaði mig mest til að fara huldu höfði. Ég hafði hins vegar hugsað mér að fara með Sóleyju niður í bæ til að sjá jólasveinana og ákvað að herða upp í mér og koma mér upp skýluklæðnaði. Þannig að við fórum niður í bæ, ég með trefil upp að nefi og dugði varla til, en kom sér reyndar líka vel með tilliti til heilsunnar að öðru leyti. Nema hvað, dóttirin, sem átti að njóta jólastundarinnar, sofnaði í bílnum á leiðinni í bæinn og vaknaði ekki þó hún væri tekin út úr bílnum og gengið með hana inn á torg. Hún sá því engan jólasveininn að þessu sinni. Ég huggaði mig við það að það kemur væntanlega jólasveinn eftir þennan!

Framundan er svo sælkerastund (það er jú nammidagur 🙂 ) með nýmöluðu kaffi og gæðaSörum. Ekki fallegum, en ákaflega ljúffengum.

106997110637458938

Þá eru það loksins kisusögur og ekki annað hægt þegar maður hefur þennan titil.
Enda fátt annað hægt í dag, þar sem ég er ekki heil heilsu og hef ekkert farið út fyrir hússins dyr.

En þannig er mál með vexti að inni í tölvuherbergi er gamla dýnan okkar. Hún er reist upp við skenk svo það sé hægt að ganga um og kisurnar eru svona óskaplega lukkulegar með þetta. Og það er ekki ferðast í hoppum upp á hana, neinei, það er miklu skemmtilegra að spássera upp og niður, eða þegar mikið liggur við, hlaupið upp og niður. Með tilheyrandi klóruförum. Og af og til dettur dýnan að sjálfsögðu niður, þegar sérlega mikið hefur gengið á. Nú gæti einhver sagt að það sé lítið mál að geyma dýnuna bara annars staðar – við erum jú með stóra og mikla geymslu. En nei, fyrir það fyrsta er þetta svo ljómandi þægilegt ef við skyldum einhvern tímann fá fólk í gistingu, þá er ekkert að gera nema smella dýnunni á gólfið (eða fá kettina til að gera það). Í öðru lagi er geymslan ekki vel fær um að taka við meira drasli. Það er nú fyrst og fremst allt barnaviðhengið sem fyllir hana en ef einhvern vantar svartan sjónvarpsskáp, svart hornborð (60×60 minnir mig) eða hvítt tölvuborð þá má viðkomandi snúa sér beint til mín. Kannski ættum við líka að hætta að kaupa húsgögn án þess að losa okkur við þau gömlu fyrst.

Talaði svo við Önnu vinkonu í kvöld. Eitt af þessum símtölum sem hafa verið lengi að fæðast. Enda stóð það í einn og hálfan tíma. Neyddist þar af leiðandi til að taka upp Lars Ulrich. En á hann þá til góða yfir kaffinu og súkkulaðinu á eftir (já já, lúxusgrís, ég veit…)

106985901352231847

Afmælisbarn dagsins er Sigrún. Hún er 29 ára í dag og stendur þess vegna frammi fyrir voðalegu ári, svona aldurslega séð. Ég kveið að minnsta kosti mikið fyrir því að verða þrítug. Kannski aðallega vegna þess að ég vissi ekkert hvernig ég ætti að halda upp á það. Lífið hefur verið auðveldara síðan. En til hamingju með afmælið. Þú lætur bara vita ef þú þarft stuðning frá þér eldri og reyndari.

Það var aftur tannadagur í gær. Nú kom sú sjöunda, að þessu sinni í neðri góm til vinstri. Eins gott að það er enginn tannálfur á heimilinu. Sá væri fátækur núna. Ég var að minnsta kosti viðbúin því þegar ég var að skoða allar nýju tennurnar í fyrradag, fann ég að það styttist í þessa.

Jólin hafa svo færst örlítið nær. Í gær settum við upp aðra jólaseríuna sem skreytir íbúðina okkar að utan. Við erum ekki þetta jólaskreytingafólk en neyðumst til þess að vera þæg fyrst við búum í fjölbýli. Erum reyndar búin að vera með leiðindi hver jól síðan við fluttum inn, því fyrstu þrjú árin var skreytt með ljótum rauðum perum – þið vitið, þessum gömlu. Við neituðum að kaupa svoleiðis og skreyttum því ekkert. Í fyrra var svo ráðist í að kaupa nýjar skreytingar á húsið en það var ekki gert fyrr en seint og síðar meir og við nenntum ekki að hengja þær upp fyrir tvær vikur eða svo. Þannig að loks geta nágrannarnir tekið okkur í sátt, nema þeim leggist eitthvað annað til.

106970943814874164

Eins er tryggir lesendur vita, var lokahóf Nikolaj og Julie í gærkvöldi. Ég gerði þennan dýrindis eftirrétt, algjöra bombu, með marengs, rjóma, kókosbollum, berjum og súkkulaði. Og át eins og grís. Sem betur fer var Kristín líka dugleg, það er ekki gaman að vera eini grísinn. En það eru ekki lokahóf um hverja helgi. Vona bara að RÚV sýni síðustu syrpuna fljótlega. Þetta er um það bil það eina sem þeir eru að sýna af viti.

Afmælisbarn dagsins er Gylfi frændi. Hann er 59 ára í dag. Ég gerði tilraun til að heimsækja hann, en hann var ekki við svo ég tók Eyþór í dönskukennslu í staðinn.
Merkileg þessi árátta í ættinni að hafa afmæli þétt. Við Anna systir erum 28. og 31. ágúst. Unnur og Dúddi 11. og 13. maí, Aðalsteinn og Árný 2. og 8. október. Hauks börn eru í raun þau einu sem eru sitt í hverjum mánuðinum öll þrjú. Hvað þá mamma og hennar systkini. Þrjú í nóvember. Annars er þetta svona í flestum fjölskyldum held ég. Það er alltaf einhver mánuður yfirhlaðiðnn afmælum á meðan aðrir eru nánast afmælislausir. Hjá okkur er mikið álag frá ágústlokum til nóvemberloka og talsvert í febrúar.

Af fröken er það að frétta að það eru komnar tvær nýjar tennur. Alveg týpískt að ég var að tala við Önnu Steinu í dag og segja henni það helsta af frænku en þá vissi ég ekkert af tönnunum. Þó hafði Sóley ítrekað tekið í fingurinn á mér og stungið honum upp í sig. Svo þegar við fórum út að ganga, þá brosti hún svo blítt til mín og þá komu tvær nýjar í ljós í efri góm. Þar af önnur aðeins neðar svo hún hefur líklega komið í gær eða fyrradag. Svona er ég kærulaus. Það er svo stutt síðan seinni aðal tönnin kom að ég var alveg róleg.

Survivor þáttur dagsins vonbrigði. Say no more.

106960396937431659

Eitthvað er nú blogger að stríða mér núna og er ekki enn búinn að birta færslu gærdagsins. Ég reyni að taka þessu með stóískri ró.
Annars er Svansý búin að blogga eftir langa bið. Ekki það að við séum mjög kunnugar, en hún er nú samt ein af fáum sem ég les reglulega. Ég minnist bara á þetta af því að hún nefni Leoncie. Við hjónin horfðum nefnilega líka á hana í gær, af miklum áhuga. Ég var einmitt að spá í þessu með aldurinn en ég verð að viðurkenna að mig grunaði að hún væri farin að síga á seinni hlutann. Hins vegar finnst mér útlitið benda til þess að eitthvað hafi verið flikkað upp á það, enda andlitið stíft og haggaðist ekki, sömuleiðis voru brjóstin mjög frískleg en það er svo sem hægt að bjarga því með ýmsum ráðum. Ég hafði mjög gaman af viðtalinu. Gísla Marteini tókst svo ljómandi upp að tala við hana á hennar plani, ég vona að ég sé ekki að ofsækja hana þó ég segi það vera tíu ára plan. Hún virðist vera á góðri leið að verða að kult fyrirbæri, er að minnsta kosti alls staðar þessa dagana. Gott mál, maður hefur eitthvað til að kætast yfir á meðan.

106953951628334505

Þannig fór nú það. Þeir sem ekkert vilja vita um Popppunkt stoppa að lesa hér – má halda áfram við greinaskilin. Annað laugardagskvöldið í röð endar þátturinn á bráðabana og hljómsveitin, sem ég held með, tapar. Bömmer. Annars skil ég ekki doktorinn með liðinn „hljómsveitin spreytir sig“. Hann er ekki að höndla að gefa mismörg stig nema í afar fáum tilfellum og því finnst mér þetta detta um sjálft sig. Kannski að hafa þetta sem almennan skemmtihluta, en ekki til stiga. Í kvöld var Trabant með ljómandi útgáfu á „Spáðu í mig“ á meðan Risaeðlan var með glataða útgáfu á „Higher and higher“, það eina sem bjargaði henni var frábært flautusóló.

Fyrst ég er á annað borð að ræða sjónvarp, verð ég að kommenta aðeins á ídólið í gær. Ég skil ekki þá keppni þar sem Alma Rut kemst ekki áfram. Ég skildi það ekki í fyrri þættinum sem hún var í og hvað þá í gær. Vissulega er Jón Sigurðs geðugur náungi en Alma var margfalt flottari. Ég er mjög spæld. En núna þegar allir keppendurnir í lokahópnum eru komnir áfram þá er kannski hægt að fara að spá í lokin. Ég sé Önnu Katrínu og Helga Rafn pottþétt vera til loka, hugsanlega verða það bara þau tvö sem keppa til úrslita. Kalli sjómaður fer sennilega langt en dugar ekki. Vala dettur frekar snemma út því hún er svo umdeild, þó mér finnist hún flott. Ætli Blönduóss-pían detti ekki fyrst út?

Í dag fórum við í ekta sveitahlaðborð hjá ömmu hans Mumma. Þá er ég að tala um kleinur, soðiðbrauð, vöfflur, muffins, döðlubrauð, marmaraköku og gulrótarköku. Við hefðum varla þurft að elda kvöldmat en höfðum samt ótrúlega stjórn á okkur. Sóley fór á kostum. Það var nefnilega allt stútfullt af krökkum, fimm stykki, öll fjögurra ára og yngri. Hamagangur á Hóli. Hún fór, með aðstoð pabba síns, í eltingarleik og skemmti sér konunglega.

106942670969605156

Afmælisbarn dagsins er Gummi frændi. Hann er 55 ára í dag. Til hamingju með afmælið Gummi!
(Af einhverjum ástæðum var ég fyrst af bloggfjölskyldunni til að nefna þetta, kannski af því að enginn býst við að hann lesi þetta).
Kannski hann ætli að skella sér á Palla í tilefni dagsins?

106941904185494442

Tækifærið ykkar sunnanlands er komið. Páll Óskar og Monika verða með tónleika í kvöld og á sunnudagskvöld í Háteigskirkju. Þetta lætur enginn ógalinn fram hjá sér fara.

106937297753850056

Ég var ekkert að ræða það í gær hvað við Palli höfum átt samleið lengi. Við fögnum nefnilega tíu ára afmæli um þessar mundir. Ég keypti „Ljúfa líf“ á útgáfudegi fyrir réttum tíu árum og síðan hef ég ekki skilið við hann. Vissulega fer hann ýmsar leiðir sem ég er ekki sammála. Ég var til dæmis aldrei hrifin af Paul Oscar – nema auðvitað í útlandinu að heilla Evrópu. En flest annað hefur náð til mín. Ég á alla diska með honum og hann og Monika eru toppurinn hingað til, þó svo „Palli“ hafi verið eins og sending frá himnum á sínum tíma. Nú þarf ég bara að ala dóttur mína upp í góðum siðum

Ég fann mikið fyrir því í gærkvöldi hvað ég hlakka til að geta farið á svona viðburði með hana. Kannski endar þetta með að hún verður á eilífu mótþróaskeiði og vill ekkert fara. Ég fer meira að segja reglulega á kaffihús með hana, bara við tvær í svona mother/daugther stemmingu.
Ehemm, kannski bara afsökun hjá móðurinn til að fá sér væna tertusneið…

Annars lykta ég af kleinum. Búin að snúa þeim nokkrum í dag og steikja þær flestar líka. Fékk kleinupoka með heim í laun. Verst að þarna fer planið mitt um að fara í bað og snemma að sofa, því ég þarf að bíða eftir að Mummi komi heim úr stærðfræðikennslunni þannig að við getum fengið okkur kaffi og kleinur.

Ungbarnasundið var ljómandi. Þau feðgin skemmtu sér sérdeilis vel. Ég held að Sóley hafi verið í montstuði að sýna pabba gamla allt sem hún hefur lært síðan hann kom síðast með. Og hún slapp við öll samskipti við sundkennarann, snéri sér bara að pabba sínum þegar hún ætlaði að tala við hana.
Áhættuatriðin eru farin að ganga betur. Þau eru til dæmis að hoppa á kaf í fanginu á mömmu og kafa á bakinu á mömmu. Hingað til ekki vakið mikla lukku, en þetta er allt að koma.

Og enginn leshringur. Það var svona sambland af pössunarvöntun og bílaskorti sem varð til þess að ég sleppti því að mæta, þetta var stofnfundur og ég vona að það hafi ekki verið einhver dularfull vígsluathöfn, sem er nauðsynleg til að fá að vera með. Mig hefur alltaf langað til að vera í leshring. Þarna á reyndar að takmarka sig við glæpasögur en ég held að ég lifi það af. Maður las nú líklega Stephen King og Agöthu Cristie hér í denn.

Að lokum. 18. des reddað. Búið að fá miða í forsölu. Gleði, gleði.